Wednesday, February 29, 2012

Fyrsta "alvöru" máltíðin

Í gær fór ég með Silju kærustunni minni á lítið hráfæðisnámskeið hjá Sollu Eiríks. Það var haldið á Gló og var í formi fræðslu og sýnikennslu. Mikið af því sem hún talaði um vissi ég nú þegar en það var gaman að fá staðfestingu á ýmsum atriðum frá henni og svo kom líka margt fram sem ég vissi ekki.
Aðalmálið fyrir mig var samt að í lok námskeiðsins fengum við öll hráfæðismáltíð og ég var ekki lítið spenntur yfir því eftir 3 vikur af endalausum bönunum, döðlum og grænmetisdjúsum.
Rétturinn samanstóð af kúrbíts- og kelpnúðlupasta með tómatasósu, pestó og kasjúmajónesi og svo ýmsum góðum salatblöndum með gulrótum, blómkáli, kókos, engifer, kóríander o.fl.
Þessi matur var fáránlega góður og leit svona út:


Í dag hef ég svo borðað meira hrátt grænmeti og liðið mjög vel. Mun samt halda áfram að borða mest ávexti á daginn.

Annars var ég búinn að minnast á hvað ég hef verið uppþemdur og með mikið loft í maganum sem hefur valdið mér töluverðum óþægindum. Ég skildi lítið í þessu en svo benti Silja mér á eitt.
Ég drakk smoothie-a í gríð og erg en hún tók eftir að þegar maður hakkar ávexti (sérstaklega banana) þá myndast mjög mikið loft sem nær ekki að leita upp á yfirborðið. Ég gleypi það því allt með drykknum.
Ég prófaði því að sleppa smoothie-um síðustu 2 daga. Veit ekki hvort það er það eða eitthvað annað en vindverkirnir hættu allavega samstundis og hafa ekki komið aftur síðan:)

Á morgun er svo kynningarfundur í Skógarhlíð 8 á vegum Crohn's og Colitis Samtakanna á Íslandi. Þar verður meltingarlæknir með fyrirlestur sem og skurðlæknir nokkur.
Innan samtakanna hefur myndast matarhópur sem mér hefur verið boðin innganga í og ætlum við að hittast á undan og ræða málin.
Ég hlakka mjög til ræða þessi mismunandi sjónarmið við læknana sem og þá sem eru í svipuðum sporum og ég sjálfur.
Ég hvet alla sem vilja kynna sér málið betur til að mæta.

No comments:

Post a Comment