Saturday, August 11, 2012

Langanir og stórir skammtar

Eftir að ég fór aftur að verða slæmur í maganum fyrir nokkrum vikum síðan fór ég að pæla hvað hefði eiginlega gerst. Ég vissi það alveg þannig séð - ég hafði einfaldlega ekki borðað rétta matinn fyrir mig heldur smátt og smátt dottið í gamla farið.
Spurningin var samt miklu meira AF HVERJU ég hafði ekki gert eins og ég átti að gera.

Hluti ástæðunnar er líklegast sá að ég prófaði að borða smá brauð kannski og fleira í þeim dúr og þoldi það alveg til að byrja með og hélt því að það væri í lagi.
Innst inni vissi ég samt að þetta átti ég ekki að gera og því fannst mér aðal ástæðan hljóta að liggja annars staðar.

Þegar ég svo var á Fresh Food Festival fékk ég nýjan vinkil á málið. Einn daginn sat ég á fyrirlestri hjá Douglas Graham þar sem hann talaði um cravings, svona mjög sterka löngun í einhverja ákveðna gerð matar. Eitthvað sem allir fá en leysa á mismunandi hátt.
Algengast er að fá fólk fái löngun í saltan og feitan mat og verður þá oftar en ekki að fá sér til að seðja þörfina.
Einnig er algengt að fá löngun í brauð og kornmeti (sterkjuríkan mat) ýmis konar.

Þetta kannaðist ég mjög vel við og var því spenntur að heyra meira um málið.

Hann sagði að svona langanir væru eðlilegar en fólk gripi einfaldlega ekki í rétta matinn á slíkum stundum.
Saltlöngunina væri auðveldlega hægt að seðja með því að borða grænt grænmeti og sterkjuþörfina með því að borða ávexti.

Í framhaldi af því fór hann að tala um magn þess matar sem við borðum. Fólk sem borðar einungis hrátt grænmeti, ávexti og hnetur yrði að borða mun meira en það oft gerir sér grein fyrir. Flest erum við alinn upp við að stærsti hluti máltíðarinnar sé kjöt og korn af einhverju tagi en svo smá grænmeti til hliðar. Svo grípur fólk í einn og einn ávöxt milli mála.

Þessari hugsun þarf fólk að breyta sem ætlar sér að skipta um mataræði. Í stað þess að borða kannski eitt epli og nokkra melónubita í morgunmat þarf kannski að borða 3 epli og heila melónu.
Salat þarf kannski að vera heill salathaus, heil gúrka, 10 tómatar og þar fram eftir götunum.

Með þessu móti nærðu að uppfylla allar þær kröfur sem líkaminn gerir og slærð á allar skyndilanganir í saltan, feitan og sterkjuríkan mat.

Þessi breyting þarf samt að gerast hægt. Maður hoppar ekki beint úr því að borða 2 banana í morgunmat í það að borða 10, en smám saman ferðu að ráða við meira magn.

Ég hlakka því til að háma í mig risastór salöt og kúffulla ávaxtadiska í náinni framtíð.

Wednesday, August 8, 2012

Aftur á byrjunarreit

Það eru liðnir nokkrir mánuðir síðan ég skrifaði síðast og í millitíðinni hafa nokkrir hlutir gerst.
Hér kemur lýsing á þeirri atburðarrás sem hefur átt sér stað:

Eftir 3 vikur á healing diet (bananar, döðlur, grænmetisdjúsar og gufusoðnar sætar kartöflur og gulrætur) hóf ég að borða "venjulegan" mat aftur.
Eins og mælt var með í Self Healing Colitis and Crohn's átti það ekki að vera "bara eitthvað" heldur ákveðið mataræði sem samanstendur af ávöxtum og hráu grænmeti að stærstum hluta en auk þess hnetum og fræjum af og til.
Þetta er oft kallað 80/10/10 eftir frægri bók eftir Douglas Graham.

Með því að borða eftir þessum "reglum" áttu Crohn's og Colitis sjúklingar að tileinka sér nýjan lífsstíl sem tryggði þeim áframhaldandi bata og góða heilsu um ókomin ár. Í raun á með þessu mataræði að vera hægt að losna við sjúkdómana fyrir fullt og allt.

Þetta gerði ég hins vegar ekki (nema alveg í byrjun) og fór smátt og smátt að leyfa mér að borða of mikið af korni, unnum vörum, salti, steiktum og mikið elduðum mat, áfengi, sumum mjólkurvörum o.fl.

Í byrjun gekk þetta ágætlega þar sem ég var orðinn alveg einkennalaus eftir healing diet-inn og þoldi kerfið því meira álag (einnig var nokkuð stutt síðan ég fór í lyfjagjöf og áhrifa þess líklega enn gætt í líkamanum).
En svo fór ástandið að versna, löturhægt þó, og ég tók því ekki vel eftir því.
Ég kláraði skólann í vor og fór að vinna á stað þar sem ég vann langar vaktir undir miklu álagi og þar tók ástandið að versna enn frekar.
Ég hélt að þessu hlyti nú að linna fyrr en síðar og hugsaði mér að ferð mín á Fresh Food Festival myndi koma mér aftur á rétta sporið.

Þegar á hátíðina var komið var ég fullur vissu um að nú myndi allt lagast. En á síðasta degi hennar var ég enn jafn slæmur og þá fór að læðast að mér sá grunur að ég þyrfti að gera eitthvað enn drastískara í málinu.
Eftir að hafa hugsað málið vel og rætt við kærustuna mína komst ég að þeirri niðurstöðu um að hætta í vinnunni þegar heim kæmi og einbeita mér eingöngu að því að koma heilsunni í lag.
Ég sá þetta sem eina tímann sem ég hafði því svo byrja ég í nýju og krefjandi námi í haust sem fylgir óhjákvæmilegt stress og álag.

Þegar heim kom tókum við 7 daga djúsföstu og algjöra hvíld sem ég tel að hafi gert mér mjög gott.
Ég byrjaði svo aftur að borða fasta fæðu en fór of fljótt í hráa grænmetið og var strax byrjaður að leyfa mér að borða brauð, drekka smá áfengi, steiktan og mikið eldaðan mat og mjólkurvörur.

Núna í dag, 3 vikum seinna, er ég orðinn mjög slæmur aftur, niðurgangur og verkir og fleira í þeim dúr.

Ég sá svo tvö viðtöl á forsíðu þessarar heimasíðu http://therawfoodcure.com/ (Jacob og Sjef) þar sem tveir menn segja sína sögu hvernig þeir unnu bug á Crohn's með hjálp bókarinnar eftir David Klein og þeirri lífsstílsbreytingu sem fylgdi í kjölfarið.

Núna er ég aftur byrjaður að lesa bókina, er á fyrsta degi í healing diet og er staðráðinn í að halda ótrauður áfram í átt að betri heilsu!

IT'S ON!

Thursday, May 17, 2012

Opið bréf til umhverfisráðherra - Erfðabreytt matvæli

Eftir að hafa lesið mikið um mat og heilsu síðustu misserin hef ég fræðst þonokkuð um erfabreytt matvæli.

Í þeim fræðum er iðulega mælt gegn slíkri ræktun. Bæði er það vegna slæmra áhrifa þeirra á heilsu manna og dýra en einnig vegna mögulegra breytinga á náttúrunni sem slíkar afurðir kunna að valda, breytinga sem í flestum tilfellum munu reynast óafturkræfar og að sama skapi mögulega hættulegar vistkerfinu í heild sinni.

Því ákvað ég að sækja ráðstefnu á vegum Umhverfisráðuneytisins sem bar nafnið "Erfðabreytt ræktun - Slepping og dreifing".

Mér til mikillar gremju og reiði var einungis fjallað um málið frá sjónarhóli þeirra sem styðja slíka ræktun og varð það kveikjan að þessu bréfi sem ég skrifaði og sendi svo umhverfisráðherra í tölvupósti:


Sæl Svandís

Ég, undirritaður, sat alla rúmu 4 klukkutímana á ráðstefnunni "Erfðabreytt ræktun - slepping og dreifing". 
Mér fannst ótrúlegt að hlusta á hvern ræðumann á eftir öðrum lofsama erfðabreytta ræktun og gera hið minnsta úr mögulegum afleiðingum neyslu manna og dýra á slíkum vörum.

Það er biturlegt að hlusta á slíka einhliða umræðu um þetta gríðarlega umdeilda og mikilvæga mál.

Þó flestir sérfræðinganna á mælendaskrá töluðu með erfðabreyttri ræktun gátu þeir nú samt allir viðurkennt og sammælst um að þegar erfðabreyttu lífverurnar kæmust út í náttúruna (mikil hætta á slíku við útiræktun) væri engin leið að taka slíkt til baka. Enn fremur fullyrtu flestir að enginn vissi heldur hvort þessar lífverur væru betur eða verr í stakk búnar til að lifa af en sín óerfðabreyttu systkini í náttúrunni.
 
Með því segja þeir að sá möguleiki sé fyrir hendi að erfðabreyttar plöntur t.d. sem sleppa út í náttúruna gætu allt eins reynst hæfari en þær óbreyttu og tekið yfir. Ef þær erfðabreyttu reynast svo stórskaðlegar heilsu fólks og dýra, eða umhverfinu er lítið sem ekkert hægt að gera í málinu.

Þennan mjög svo raunhæfa möguleika er stórhættulegt að vanmeta og því tel ég mikið gáleysi að fjalla um málið einvörðungu frá sjónarhóli þeirra sem styðja þessa tækni (sem er hugsanlega að hluta til sami hópur og hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þessu máli, en það er nú efni í annað bréf og í það skipti til Iðnaðar- og Landbúnaðarráðuneytisins).

Einn ræðumanna gekk lengra en aðrir og fullyrti að engar rannsóknir sýndu fram á slæmar afleiðingar slíkrar ræktunar, allavega engar "alvöru rannsóknir".

Nú á síðasta ári sótti ég undirritaður fyrirlestur Vandana Shiva frá Indlandi. Hún er menntaður eðlisfræðingur og heimspekingur og hefur skrifað yfir 500 vísindagreinar og 20 bækur, þar af mikið um erfðabreyttar nytjavörur, sem hún berst einnig hart gegn. Auk þess hefur hún unnið með fólki sem rannsakar áhrif slíkra nytjavara og komið að fjölmörgum slíkum rannsóknum sjálf.

Háskóli Íslands, helsta menntastofnun landsins, stóð fyrir komu hennar til landsins.
Með því að fjalla um málið frá þessu eina sjónahorni tel ég að starfi Háskólans, Vandana Shiva og síðast en ekki síst þjóðinni sjálfri hafi verið sýnd vanvirðing.
Af hverju segi ég það? Vegna þess að með því er lítið gert úr starfi allra þeirra sem vinna að rannsóknum á skaðsemi erfðabreyttra matvæla og einnig vegna þess að með því er heilsu þjóðarinnar mögulega stefnt í hættu.

Eftir ráðstefnuna fóru að birtast fyrirsagnir eins og þessi hér: http://ruv.is/frett/erfdabreytt-matvaeli-haettulaus .
Að fullyrða slíkt í stærsta fréttamiðli landsins getur ekki aðeins talist heimskulegt og rangt heldur einnig mögulega stórhættulegt.
Ég vona innilega að þessar fréttir síðustu daga komi ekki til með að festast í höfðum landsmanna.

Til að svo verði ekki vil ég skora á þig að stíga fram, gera athugasemd við þennan fréttaflutning. Þannig væri hægt að beina athyglinni að hinni hlið málsins. 
Á þeirri hlið er nefnilega fólk, vísindamenn jafnt sem almenningur, sem lætur sér annt um heilsu manna og dýra, umhverfið og framtíð jarðarinnar allrar.

Virðingarfyllst,
Arnar Pétursson

Tuesday, April 10, 2012

Kæruleysi og afturför

Núna eru akkurat liðnar 6 vikur síðan ég byrjaði aftur að borða "venjulegri" mat. Þar áður hafði ég í 3 vikur borðað ekkert nema sæta ávexti, grænmetisdjúsa og gufusoðið grænmeti af og til. Þessar 3 vikur köllum við Healing Stage og eftir það fannst mér ég aldrei hafa verið betri í maganum áður.

Ég byrjaði svo frekar rólega að færa mig meira yfir í hrátt grænmeti, hnetur og fræ og þess háttar, og leið áfram mjög vel.
Svo smám saman varð ég kærulausari, fékk mér grænmetishamborgara og meiri skyndibita (meira að segja franskar), steiktan og mikið eldaðan mat, oft of mikið af hnetum og fræjum og drakk of mikið áfengi í páskafríinu.

Síðustu vikuna var ég hvað kærulausastur og núna finn ég fyrir því. Lausari hægðir þar sem líkaminn nær ekki að vinna vel úr því sem ég hef sett ofan í hann.

Í dag er ég með hálsbólgu, frekar slappur og ekki eins góður í maganum og ég vildi vera. Ég tel ástæðuna að stórum hluta vera sukkið síðustu 2 eða 3 vikurnar.

Í gær ákvað ég því að taka nokkur skref til baka og borðaði bara ávexti og grænmetisdjúsa. Ég mun halda því áfram í dag (eða jafnvel bara fasta, drekka fullt af vatni og hvíla mig vel eins og ráðlagt er að gera í Self Healing Colitis and Crohn's) og sjá svo hvað setur.

Það verður gaman að sjá hvort og hvernig ástandið lagast eftir að ég núna byrja aftur að borða það sem mér var ráðlagt.

Já leiðin að góðri heilsu er greinilega ekki bein og langt frá því að vera hindranalaus. En með reynslunni lærum við örugglega smám saman að velja og hafna þangað til við komumst á þann stað sem við viljum.
Maður má bara ekki missa sjónar á markmiðinu.

Tuesday, April 3, 2012

Eldaður Matur

Eldaður matur þykir fullkomlega sjálfsagður í örugglega öllum samfélögum heimsins.
Það er gaman að elda, það kemur góð lykt og oft er það beinlínis nauðsynleg aðferð svo við getum notið ýmissa matartegunda og melt.
Þegar við lifum í þannig samfélagi þar sem a.m.k. helmingur alls sem við borðum er eldað er samt þess virði að velta því aðeins fyrir sér hvaða áhrif hiti og eldur hefur á mat.

Erfitt er að fullyrða nákvæmlega um hvenær fólk hóf að hita matinn sinn en öruggt er að við höfum ekki gert það alla tíð. Lengst af borðuðum við bara það sem líkaminn okkar gat melt óeldað, þ.e. ávexti aðallega og svo grænmeti, hnetur og fræ.
Það var á þessu fæði sem heilinn í okkur þróaðist hvað mest og varð frábrugðinn heila annarra dýra að miklu leyti.

Í kjölfarið fórum við að dreifast um alla jörðina og geta búið á stöðum sem annars hefðu verið gjörsamlega óbýl fyrir tegund eins og okkur. Ástæður þess eru aðallega þær að við gátum búið okkur til föt og skjól, og höfðum eld til að halda á okkur hita og til að elda kjöt á þeim stöðum þar sem ávextir og grænmeti voru af skornum skammti.

Þetta hélt í okkur lífinu og er aðalástæða þess hvers vegna við búum t.d. á Íslandi í dag. Ávextir og grænmeti voru í gegnum aldirnar af mjög skornum skammti og engan veginn nóg til að halda heilli þjóð uppi, þó smá væri. En fólk hafði dýrin og það borðaði af þeim kjötið og afurðir ýmis konar, ásamt soðnum kartöflum.

Þessu er ég afar þakklátur og væri væntanlega ekki að skrifa þennan texta ef forferður mínir hefðu ekki verið duglegir við að borða það sem þurfti til að lifa af.



Þessar matarvenjur þróuðust svo smám saman og urðu að hefðum, burtséð frá því hvort maturinn sé góður eða slæmur fyrir okkur.

Núna í augnablikinu búum við hins vegar svo vel að geta valið algjörlega það sem við látum ofan í okkur. Við þurfum ekki að sætta okkur við súrsaða hrútspunga og soðnar kartöflur í hvert mál til þess eins að lifa af (þó vissulega finnist mörgum það gott).

Rannsóknir sýna að þegar matur er eldaður breytast ýmis næringarefni í honum og skemmast í mörgum tilfellum. Prótein t.d. breytast og uppbygging þeirra skemmist í ferli sem kallast á ensku denaturation. Þetta ferli fer einnig fram við eðlilega meltingu í maga og görnum en ekki á sama hátt.
Eftir að hitinn hefur umbreytt próteinunum er afar erfitt að melta þau eðlilega og því er oft talað um að eina hættan á alvöru próteinskorti sé þegar fólk neyti aðeins eldaðra matvæla.

Sama gildir um vítamín sem einnig skemmast við hita og steinefni sem breytast úr því að vera á lífrænu og meltanlegu formi yfir í ómeltanleg og oft varasöm efni.

Flestir vísindamenn eru sammála um að hiti og eldur skemmi mat en ekki eru allir sammála um hversu mikið. Þeir sem helst styðja ágæti eldunar benda á að án aðferðarinnar gætum við ekki borðað mat eins og kjöt, kornvörur og sumar tegundir grænmetis.
En þá er hægt að spyrja sig, eigum við þá eitthvað að vera að borða þessar afurðir?

Náttúrunar gerir klárlega ekki ráð fyrir að við eldum matinn okkar og því eru öll þau efni sem við þörfnumst fólgin í plöntum sem við getum borðað hráar.
Með því að segja að við verðum að borða ákveðnar afurðir s.s. kjöt og kornvörur til að fá öll næringarefni erum við að vanmeta náttúruna og það er eitthvað sem við ættum að fara varlega í, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum núna.

Ekki samt misskilja, ég er ekki að segja að eldaður matur sé eitraður og að enginn ætti að borða hann. Ég er bara að líta á málið út frá ákveðnu sjónarmiði sem er nýtt fyrir mér og mér finnst sjálfum meika sens. Ég borða alveg eldaðan mat en þó mun meira hrátt en áður og stefnan er að verða 100% hrár í framtíðinni.

Monday, March 19, 2012

Samsetning máltíða

Þangað til snemma á þessu ári hef ég aldrei pælt neitt í samsetningu þeirra máltíða sem ég borða. Ég hafði í raun ekki hugmynd að það skipti neinu máli hvernig mat væri blandað saman og því leiddi ég ekki hugann að því.
Mér finnst líklegt að fólk almennt pæli ekki mikið í þessu og því langar mig aðeins að skrifa niður það sem ég hef lært síðustu vikurnar.

Blöndun hráefna hefur mikil áhrif á meltingu matarins og getur í raun haft mikið um það að segja hvort maturinn meltist yfir höfuð.
Það sem kannski flestir þekkja úr þessum fræðum er að ekki sé gott að blanda saman kolvetnum (sterkju) og prótínum. Það sem gerist þegar við borðum sterkju er að kirtlar í munninum seyta ensími sem heitir ptyalin (mjög gott orð) sem brýtur niður sterkjuna í maltósa (tvísykra). Á meðan þetta gerist er sýrustig munnsins og magans frekar hátt (basískt).
Þegar líkaminn meltir prótín (t.d. hnetur og avókadó) þá breytist sýrustigið og verður lágt (súrt) því þannig verður líkaminn að vera þegar slíkur matur er meltur.

Þegar þetta tvennt er borðað reynir líkaminn samtímis að hafa lágt og hátt sýrustig sem veldur því að hvorugt efnið meltist vel - sterkjan gerjast og prótínin rotna. Það orsakar svo mikla gasmyndun í líkamanum (þegar sykrur gerjast er aukaafurðin illa lyktandi og oft eitrað gas) og ýmsar aðrar meltingartruflanir. Einnig nær líkaminn þ.a.l. ekki að nýta sér almennilega næringuna úr matnum sem auðvitað er slæmt.

Það sama gerist þegar súrir ávextir eru borðaðir með sterkju, nema að í ofanálag hindra þeir beinlínis seytingu ptyalins í munninum þannig að sterkjan meltist enn verr.

Hér koma svo helstu leiðbeiningar um samsetningu matar sem ég hef lesið mér til um:

-Ávexti ætti aðeins að borða alveg sér eða með grænu laufmeti, sellerí eða gúrku
-Melónur ætti að borða alveg sér (þær eru svo vatnsmiklar og meltast á svipuðum hraða og djús. Ef t.d. bananar eru borðaðir með er hætta á melónurnar staldri lengur við í maganum með bönununum og þá eykst hætta á að þær gerjist).
-Sítrúsávexti ætti að borða a.m.k. hálftíma á undan öðrum ávöxtum.
-Sterkju (kartöflur, korn, gulrætur..) er hægt að borða með öllu grænu laufmeti, sellerí, gúrku og papriku en EKKI með tómötum, hvorki sætum né súrum ávöxtum, hnetum, fræjum eða avókadó.
-Fitu- og prótínríkur matur (hnetur, fræ og avókadó) blandast vel með grænu laufmeti, sellerí og gúrku og LITLU magni af súrum ávöxtum (þ.m.t. tómötum). EKKI ætti að blanda því saman við sterkju og sæta ávexti.

Ef þessu er fylgt ætti maturinn að meltast vel og örugglega án þess að gerjast eða rotna í meltingarkerfinu.
Kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur er ekki talað um í þessum fræðum þar sem þessar afurðir eru taldar óæskilegar.

Það tekur smá tíma fyrir þessar upplýsingar að síast inn en fljótlega verður þetta leikur einn.

Monday, March 12, 2012

Mín líðan þessa dagana

Núna eru bráðum 5 mánuðir síðan ég fór síðast í Remicade. Þann 9. febrúar byrjaði ég á þessu svokallaða healing stage þar sem ég borðaði einungis sæta ávexti, grænmetis- og ávaxtadjúsa og smá gufusoðið grænmeti. Það stóð yfir í 3 vikur.
Eftir það byrjaði ég að borða meira hrátt grænmeti, avókadó, hnetur og fræ (og ávexti auðvitað) og hef gert það núna í um 2 vikur.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið 100% hrár né 100% vegan þessar síðustu 2 vikur. Hef einu sinni fengið mér grænmetishamborgara (ekki gott að borða hvítt hveiti, sykur né steiktan/grillaðan mat) og svo grænmetispizzu (slæmt: hvítt hveiti og ostur).
Ég hef líka drukkið áfengi tvisvar sinnum.

Þrátt fyrir þessar nokkru freistingar sem ég hef fallið fyrir verð ég að segja að mér líður mjög vel. Ég hef haldið mataræðinu nánast alveg vegan og í kringum 80% hrátt. Passa mig svo að borða ekki of mikið af korni, hnetum og fræjum. Bara svona í hófi.

Ég man ekki eftir að hafa verið svona góður í maganum áður. Enginn niðurgangur og loft í maganum í algjöru lágmarki. Það mætti því segja að ég sé algjörlega einkennalaus í dag.

Þetta er betra en ég þorði að vona og er ég því mjög glaður yfir þessum árangri. Ég þarf samt að vera á varðbergi fyrsta árið því þá er líkaminn ennþá nokkuð viðkvæmur og það þarf kannski ekki mikið til að ég verði slæmur aftur.

Læknirinn minn bað mig svo um að hitta sig seinni partinn í apríl og þá verður tekin blóðprufa og létt skoðun. Hann vildi hitta mig fyrr en síðar ef það kæmi í ljós að ég þyrfti aftur að byrja á Remicade.
En að byrja á Remicade aftur er eitthvað sem ég vil ekki gera og ég hef trú á því að geta verið laus við lyf fyrir fullt og allt.

Ég mæli enn og aftur með bókinni Self Healing Colitis and Crohn's eftir David Klein. Í henni eru mjög ítarlegar upplýsingar um allt sem viðkemur þessum sjúkdómum og svo nákvæmt matarplan sem ég hef fylgt.
Ef þið viljið nálgast bókina þá get ég sent ykkur hana á tölvutæku formi (.pdf). Sendið mér póst á sullumbulli@gmail.com (þarf bráðum að skipta um addressu, ég veit) og þá sendi ég ykkur hana um hæl.

Wednesday, March 7, 2012

Fundur hjá Crohn's og Colitis samtökunum

Síðasta fimmtudag fór ég á fund hjá Crohn's og Colitis samtökunum á Íslandi, eða CCU eins og þau kalla sig. Tveir læknar héldu þar kynningar, annar lyflæknir en hinn skurðlæknir. Þeir ræddu báðir um nýjungar innan síns fags og það kom í ljós að ýmsar tegundir lyfja eru notaðar gegn þessum sjúkdómum. Lyflæknirinn sagði að ástand hvers sjúklings væri metið hverju sinni og viðeigandi lyf prófað. Ef það virkaði ekki væru ýmis önnur lyf í stöðunni sem hægt væri að reyna á.

Ég hlustaði á ræðuna en þar sem ég hef nú ekki mikla trú lengur á lyfjum við Crohn's var áhugi minn nokkuð takmarkaður.

Ein af fyrstu glærunum sem læknirinn notaðist við hafði að geyma lista yfir þá hópa lyfja sem notast er við. Sá neðsti hét "Náttúrulyf" og sá fannst mér mest spennandi og ákvað því að spyrja betur út í það.
Það kom í ljós að náttúrulyf er flokkur sem inniheldur allt það sem fólk ákveður að prófa við sjúkdómnum en eru ekki viðurkennd beint af hefðbundnum læknavísinum. Þannig að í rauninni inniheldur flokkurinn ekki neitt ákveðið.

Læknirinn sagði okkur að hann og kollegar hans gætu bara unnið með efni sem væru vísindalega rannsökuð, t.d. lyf eins og Remicade. Mjög lítið er til af slíkum rannsóknum varðandi áhrif mataræðis á Crohn's og því engin vísindi fyrir lækninn til að styðjast við. Hann sagði mér ennfremur að nánast allar rannsóknir sem gerðar væru á lyfjum væru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjunum sjálfum.

Umfangsmiklar rannsóknir kosta gríðarlega peninga og það er einmitt það sem lyfjafyrirtækin eiga. Svo er það auðvitað þeirra hagur að rannsaka lyf sem þeir geta svo selt og stórgrætt á. Þetta er bara bissness eins og hver annar.

Það er því ekki skrýtið að fáar rannsóknir séu til sem sýna fram á áhrif mataræðis á Crohn's. Það er einfaldlega enginn sem vill fjármagna slíkar rannsóknir. Ég meina það getur enginn grætt peninga á að fólk fari að borða hollari mat!
Til lengri tíma litið myndi nú reyndar allt samfélagið græða gríðarlega á því að fólk væri heilbrigðara en það virðist ekki vera hugsunin þessa stundina.

Svo barst mataræði í tal og nokkrir úr hópnum spurðu lyflækninn út í áhrif þess, enda búið að starta matarhóp innan samtakanna í kjölfar vaxandi áhuga á viðfangsefninu.
Svör hans voru helst á þá leið að mataræði skipti einhverju máli en fólk væri svo mismunandi og því erfitt að gefa almenn ráð.
Það er auðvitað rétt að fólk er ekki allt eins en mér finnst þetta dáldið ódýr lausn. Þó svo að einhver munur sé á fólki hlýtur að gilda það sama um flesta í mörgum tilfellum. En þá komum við aftur að því sem er eða er ekki vísindalega sannað og þetta því komið út fyrir verksvið lækna.

Það eru þó fjölmargar sögur af fólki sem hefur læknast af þessum sjúkdómum með breyttu mataræði og maður þarf bara að ákveða sjálfur hverjum maður trúir og hvað maður gerir í þessum málum.

Ég kem svo með öppdeit á næstu dögum á því hvernig mér gengur og líður.

Wednesday, February 29, 2012

Fyrsta "alvöru" máltíðin

Í gær fór ég með Silju kærustunni minni á lítið hráfæðisnámskeið hjá Sollu Eiríks. Það var haldið á Gló og var í formi fræðslu og sýnikennslu. Mikið af því sem hún talaði um vissi ég nú þegar en það var gaman að fá staðfestingu á ýmsum atriðum frá henni og svo kom líka margt fram sem ég vissi ekki.
Aðalmálið fyrir mig var samt að í lok námskeiðsins fengum við öll hráfæðismáltíð og ég var ekki lítið spenntur yfir því eftir 3 vikur af endalausum bönunum, döðlum og grænmetisdjúsum.
Rétturinn samanstóð af kúrbíts- og kelpnúðlupasta með tómatasósu, pestó og kasjúmajónesi og svo ýmsum góðum salatblöndum með gulrótum, blómkáli, kókos, engifer, kóríander o.fl.
Þessi matur var fáránlega góður og leit svona út:


Í dag hef ég svo borðað meira hrátt grænmeti og liðið mjög vel. Mun samt halda áfram að borða mest ávexti á daginn.

Annars var ég búinn að minnast á hvað ég hef verið uppþemdur og með mikið loft í maganum sem hefur valdið mér töluverðum óþægindum. Ég skildi lítið í þessu en svo benti Silja mér á eitt.
Ég drakk smoothie-a í gríð og erg en hún tók eftir að þegar maður hakkar ávexti (sérstaklega banana) þá myndast mjög mikið loft sem nær ekki að leita upp á yfirborðið. Ég gleypi það því allt með drykknum.
Ég prófaði því að sleppa smoothie-um síðustu 2 daga. Veit ekki hvort það er það eða eitthvað annað en vindverkirnir hættu allavega samstundis og hafa ekki komið aftur síðan:)

Á morgun er svo kynningarfundur í Skógarhlíð 8 á vegum Crohn's og Colitis Samtakanna á Íslandi. Þar verður meltingarlæknir með fyrirlestur sem og skurðlæknir nokkur.
Innan samtakanna hefur myndast matarhópur sem mér hefur verið boðin innganga í og ætlum við að hittast á undan og ræða málin.
Ég hlakka mjög til ræða þessi mismunandi sjónarmið við læknana sem og þá sem eru í svipuðum sporum og ég sjálfur.
Ég hvet alla sem vilja kynna sér málið betur til að mæta.

Saturday, February 25, 2012

Þyngdartap

Jæja núna eru rúmlega 2 vikur liðnar síðan ég hóf healing stage "kúrinn". Mér líður ágætlega, er reyndar ennþá oft með of mikið loft í maganum og því fylgja smá óþægindi. En þetta er allt hluti af hreinsuninni sem er í gangi og það hefur ekki vottað fyrir niðurgangi allan tímann (sem er breyting frá því sem áður var) þannig að ég tek þessu bara með ró.

Ég hef lést um nokkur kíló, veit ekki alveg hvað ég er þungur núna en ég myndi giska á að um 5 kíló séu farin núna. Nú var ég alveg grannur áður þannig að ég virðist vera smá horaður núna.
Þetta hefur valdið vægum áhyggjum hjá vinum og vandamönnum, sem er auðvitað skiljanlegt. Síðast þegar ég léttist mikið var þegar ég greindist með Crohn's og þá horaðist ég gífurlega og var ekki sjón að sjá.
Núna hins vegar er þetta allt annars eðlis. Þá var ég með stöðugan niðurgang en það er ekki málið í dag.
Það sem er í gangi núna er mjög eðlilegt detox þar sem líkaminn fær nú loksins tækifæri til að hreinsa út allt sem hefur safnast fyrir í honum gegnum árin og því fylgir óhjákvæmilega nokkuð þyngdartap. Þetta er skrifað hvað eftir annað í Self Healing Colitis and Crohn's og svo hef ég lesið margar reynslusögur þeirra sem fóru í gegnum sama ferli. Það er því ekkert að óttast.

Monday, February 20, 2012

Líkaminn er magnaður

Ein af grunnstoðum náttúrulækninga (Natural Hygine eða Orthopathy) er sú kenning að ekkert geti læknað líkamann nema hann sjálfur. Eina sem við eigum að gera er að gera honum það kleift með réttu mataræði, hreyfingu o.fl. Ættum í rauninni að "vera ekki fyrir" og ekki trufla hann með því að dæla í okkur óþarfa lyfjum og slæmum mat.
Það er gengið útfrá því að flestöll ef ekki öll lyf (að undanskildum lyfjum við bráðatilfellum) séu skemmandi fyrir líkamann, þó þau geti um tíma litið út fyrir að virka, og að líkaminn læknist ÞRÁTT fyrir þau en ekki VEGNA þeirra.

Þetta er eitthvað sem hin almennu læknavísindi samþykkja ekki og reyna þau í langflestum tilvikum að finna lausnir á vandamálum með lyfjum.

Þetta eru 2 gjörólíkar skoðanir á málefni sem skiptir gríðarlegu miklu máli og er því vert að staldra við og kanna málið vel áður en maður myndar sér skoðun á þessu.

Samfélagið lítur á lyflækningar sem sjálfsagðan hlut. Þú kennir þér einhvers meins, þá færðu lyf. Sjaldnast er reynt að komast að orsökum veikindanna heldur eru einkennin meðhöndluð með einhvers konar efnablöndum, búnum til að fólki.
Svona aðferðir hafa verið við lýði í langan tíma og hafa færst í aukana á síðustu árum. Núorðið er hægt að fá pillur við ótrúlegustu hlutum og svo virðist sem afstaðan sé sú að fólk eigi bara að gera hvað sem þeim dettur í hug og svo ef eitthvað kemur upp á þá sé það trítað með lyfjum. Með öðrum orðum að fólk þurfi ekki að taka neina ábyrgð á eigin heilsu heldur bara vaða áfram hugsunarlaust og láta aðra sjá um að búa til lyf handa sér við hinum ýmsu kvillum sem fylgja lífsstílnum.

Eftir að hafa lesið mér nokkuð vel til um ýmsar kenningar sem lúta að almennri heilsu hef ég orðið margs vísari um starfssemi líkamans.
Líkaminn er óhugnarlega flókið fyrirbæri sem á hverri einustu sekúndu framkvæmir svo margar og flóknar aðgerðir að það er ekki nokkur leið fyrir okkur að skilja hvað er í gangi nema í mjög grófum dráttum.
Samt erum við svo hrokafull að telja að við höfum réttu svörin við heilsuvandamálum ýmis konar þrátt fyrir þessa mjög takmörkuðu vitneskju um líkamann. Með því að búa til ónáttúruleg lyf og dæla þeim í okkur erum við í raun að segja að við vitum betur en náttúran sem hefur í milljónir ára þróað okkur og gert okkur að því sem við erum.
Þessu er oft líkt saman við mann sem fálmar út í myrkrið í algjörri óvissu í leit að ljósrofanum.

Við eigum ansi langt í land með að komast að leyndardómum náttúrunnar og á meðan held ég að það sé best að leyfa henni að vinna sitt verk í friði svo við vinnum henni og okkur sjálfum ekki meiri skaða en þörf er á.

Thursday, February 16, 2012

Fyrsta vikan á healing stage

Eftir fundinn síðastliðinn fimmtudag ákvað ég að taka þetta föstum tökum og fara eftir því sem David sagði í einu og öllu, bæði því sem stóð í bókinni og því sem hann sagði á fundinum.
Strax á laugardaginn leið mér MIKLU betur, eiginlega bara ótrúlega vel. Ég trúði því eiginlega ekki. Maturinn var greinilega að meltast fullkomlega því ég var ekkert uppþemdur með loft í maganum og klósettferðirnar í toppstandi.

Það sem ég hef verið að borða síðan þá er semsagt nánast eingöngu smoothie-ar. Fyrst bý ég til djús úr t.d. eplum, perum, vínberjum, gúrku, sellerí eða gulrótum og svo blanda ég því saman við fullt af bönunum og döðlum í mixer og drekk eins og ég eigi lífið að leysa. Þannig fæ ég öll vítamín, steinefni og amínósýrur sem ég þar og einnig fullt af orku.
Í kvöldmat hef ég svo verið að fá mér gufusoðið grænmeti. Þetta borðaði ég t.d. í gær:


Svo eftir 5 daga að borða alltaf gufusoðnar sætar kartöflur og papriku fór ég að bæta brokkolí við en þá fannst mér eins og maginn fylltist aftur dáldið af lofti (gerjun og rotnun).
Ég hef aldrei verið mikið fyrir soðið grænmeti og í gær fékk ég alveg upp í kok af því. Leið ekki vel, varð hálf flökurt bara. Svo er líka annað með að borða svona soðið grænmeti; ég má helst ekki borða ávexti fyrr en 6 tímum seinna svo þetta nái allt að meltast vel (annars er hætta á að þetta gerjist með ávöxtunum í maganum) og þá verð ég oft svangur á kvöldin, sem er ekki gaman.

Þannig að í dag borðaði ég bara smoothies með grænmetisdjúsum í dag og líður miklu betur. Sendi honum svo email og spurði hvort það væri ekki í lagi að borða það frekar bara og sleppa alveg þessu soðna dóti. Fæ vonandi svar bráðum.

En allavega þá líður mér miklu betur en fyrir viku síðan og er mjög spenntur fyrir framhaldinu.

Ein pæling í lokin svo. Þegar ég sagði lækninum mínum frá því að ég ætlaði að hætta á Remicade og prófa þetta í staðinn þá studdi hann mig í þeirri ákvörðun en sagði samt að með því tæki ég ákveðna áhættu.
Það er að vissu leyti satt en svo er líka hægt að líta á það svona:

Remicade er "ungt" lyf sem lítil langtímareynsla hefur fengist á. Það bælir niður ónæmiskerfið og dregur þannig úr vörnum líkamans og trítar aðeins afleiðingarnar en ekki orsakirnar.
Það sem ég er að gera núna er að borða hollan og góðan mat beint frá náttúrunni, matinn sem mannkynið hefur borðað nánast allan tímann sem það hefur verið til. Það mataræði sem var borðað á þeim tíma sem helstu framfarir í heila mannsins áttu sér stað og það mataræði sem var borðað ÁÐUR en allir helstu nútímasjúkdómar lætu á sér kræla s.s. crohn's og colitis, sykursýki 2 og krabbamein.

Þegar ég horfi á þetta svona er nokkuð ljóst hvar áhættan liggur.

Monday, February 13, 2012

Fundurinn með Dr. David Klein

Síðasta fimmtudag átti ég Skype fund með nýja "lækninum" mínum honum David Klein.
Upphaflega átti fundurinn að vera á þriðjudegi í síðustu viku en hann býr á Hawaii og þar geisaði einhver stormur það kvöld og við þurftum að fresta um tvo daga.
Fundurinn var mjög góður, ég tók hann upp og ég ætla að skrifa niður helstu hluti sem við töluðum um:

-Ég lýsti fyrir honum hvernig mér liði (var þá búinn að vera frekar uppþemdur og ekki alveg nógu góður í maganum).
-Sagði honum hvað ég hefði borðað og hann sagði mér að sleppa kíví, mangó og öllum súrum ávöxtum í bili.
-Ráðlagði mér að búa til mikið af sellerí-gulrótar-epla-vínberja-peru-salat-gúrkudjús í djúsvél.
-Sagði honum að ég hefði borðað dáldið af hrísgrjónum, hnetum og avókadó en hann sagði að ég ætti alls ekki að borða það á meðan líkaminn er ennþá að lagast (en sleppa hrísgrjónum samt alveg).
-Sleppa alveg öllu kryddi, salti, pipar, lauk og chili (if it burns my mouth it's gonna burn my colon, eins og hann sagði).
-Sagði mér frá hráfæðis-jóga-festivali í Danmörku sem heitir Fresh Food Festival, sem ég er búinn að ákveða að fara á næsta sumar.
-Ráðlagði mér, og sagði að það hljómaði kannski skringilega, að fara frekar einstaka sinnum í stuttan ljósatíma yfir dimmustu mánuðina til að fá D-vítamín. Betra að fá það gegnum húðina heldur en í pillum.
-Sleppa ferskum kryddjurtum á meðan healing stage stendur.
-Eina bætiefnið sem hann mælti með var duft úr bygggrasi (eða þá að drekka hveitigrasdjús af og til).
-Söl og annar sjávargróður er góður útaf ýmsum steinefnum og snefilefnum en slæmt vegna magns eiturefna (sjávargróður er hreinsistöð hafsins og dregur í sig eiturefnin), salts og einnig erfiðleika við að melta. Frekar að sleppa því.
-Sagði mér ýmislegt um eldaðan mat og benti mér á greinar. Mun tala um það í næstu bloggum.
-Hann borðar avókadó, hnetur og fræ bara einu sinni í viku. Það er nóg fita.
-Alls ekki borða hrátt grænmeti eins og er, bara djúsa og gufusoðið í kvöldmat.
-Fylgja Vegan Healing Diet Plan eins og stendur í bókinni Self Healing Colitis and Crohn's í sirka 4 vikur. 1. vikuna þarf ég að hakka allt í mixer, og djúsa grænmetið og harðari ávexti.
-Spurði hann hvort hann væri einhverntíma slæmur í maganum og hann sagðist einstaka sinnum finna aðeins fyrir sjúkdómnum ef hann borðaði of mikið af hnetum og fræjum.
-Ráðlagði mér að leggja hráar hnetur og fræ í bleyti í nokkra tíma, hella svo vatninu af og leyfa þeim að spíra í 24 tíma áður en ég borða þær (eftir healing stage).
-Sagði eftir 6 mánuði væri hugsanlega í lagi að fá sér bjór af og til en helst að sleppa því. En að það myndi ekki drepa mig allavega.
-Sagði að lyf við Crohn's væru bara að halda niðri einkennum og gerðu bara illt verra.

Ég segi ykkur svo betur frá hvernig þetta hefur gengið í næsta bloggi.

Saturday, February 11, 2012

Smoothie time!

Hérna er morgunmaturinn minn í dag:

Djús í djúsvél: hálf gúrka, slatti af sellerí, ca. 30 vínber, 2 epli.
Svo er það hakkað saman í mixer með 5 bönunum og 4 döðlum.
Sjúklega næs!

Tuesday, February 7, 2012

Hvaðan fæ ég prótein?

Þessi spurning er væntanlega sú sem oftast kemur upp í umræðunni um grænmetisætur og þá sérstaklega ef um veganisma er að ræða: "Hvar færðu prótein ef þú borðar ekkert kjöt, fisk né mjólkurvörur?".
Fyrir um ári síðan hefði ég spurt eins (og það er skiljanlegt að fólk velti þessu fyrir sér) en eftir að ég fór að lesa mér vel til um málið varð ég margs vísari.

Nú vita flestir að hnetur og fræ innihalda nokkuð magn af próteinum en í raun gætum við samt alveg sleppt þeim en samt fengið meira en nóg af próteinum.
Ástæðan er sú að að í flestu grænmeti og ávöxtum er svipað mikið magn af próteinum og í móðurmjólkinni, eða um 8%. Málið er bara að þau eru í formi amínósýra.
Öll prótein eru gerð úr löngum keðjum af amínósýrum sem síðan þarf að brjóta niður í ferli sem þarfnast mjög mikillar orku. Svo er þeim aftur raðað saman í lifrinni í þau prótein sem við þurfum.
Próteinin í t.d. vel þroskuðum ávöxtum eru því aðgengileg og þarfnast lítillar orku að melta á móti því að melta dýraprótein sem er mjög erfitt ferli.
Ef það er ekki nóg inniheldur hrátt grænmeti og ávextir ensím sem eru ekkert annað en prótín og einnig eru kjarnsýrur (úr amínósýrum) í hverri einustu plöntufrumu.


Allt frá fyrstu tíð hefur okkur verið kennt að við þurfum að borða kjöt til að fá prótein og maður gleypti við því mjög lengi án þess að efast neitt um málið.
Fyrirtæki keppast við að troða þessum upplýsingum ofan í fólk og úr verður mikill bissness. Svo virðist sem mikil próteinneysla sé það allra mikilvægasta sem ætti að hafa í huga þegar kemur að næringu.
Staðreyndin er samt sú að próteinskortur er nánast óþekkt fyrirbæri og bendir jafnvel margt til þess að mikil neysla á próteinríkum mat geti leitt til ýmissa algengra og alvarlegra kvilla. Ástæða þess er sú að mjög próteinríkur matur er oftar en ekki fituríkur sömuleiðis.

Svo finnst mér líka áhugavert að pæla í því hvað væri þá eiginlega málið með t.d. górillur og naut ef engin prótein væru í grænmetisfæði. Þau lifa eingöngu á plöntum en eru vöðvafjöll með meiru.

En allavega þá er ég að fara á Skype fund með David Klein kl 22 í kvöld. Er vægast sagt spenntur, hann mun væntanlega troðfylla mig af einhverju góðum fróðleik, svara spurningum sem ég hef og búa til glænýtt "healing" matarplan sem ég mun styðjast við á komandi vikum.

Það sem ég ætla m.a. að spyrja hann út í er:

- Hvaðan fæ ég helst D-vítamín (því ég fæ svo lítið úr sólinni á Íslandi)
- Er í lagi að borða ferskar kryddjurtir? (því krydd almennt er ertandi fyrir meltingarkerfið)
- Söl eru mjög kalkrík en ekki mælt með að borða þau á meðan healing stage stendur þar sem þau innihalda grófar trefjar. Væri í lagi að pressa fersk söl í djús?
- Er í alvöru nánast ómögulegt að melta elduð prótein?
- Má ég borða súra ávexti á healing stage?
- Nú er ekki mælt með að borða hrátt og gróft grænmeti á meðal bólgur er til staðar. Hvað með ef ég hakka það í mixer?

Svo mun ég láta ykkur vita hvernig fór!

Friday, February 3, 2012

Morgunmatur

Núna ríkir hálfgert millibilsástand hjá mér. Eins og ég sagði síðast ákvað ég að bíða aðeins með að gerast 100% hrár þangað til eftir skypefundinn með David Klein. Var ekki alveg viss um hvað ég var að gera og fannst réttast að bíða eftir að fá almennilegt matarplan sem væri sérsniðið að mínum þörfum, á miklu auðveldara með að gera hluti ef ég veit nákvæmlega hvað ég á að gera.
Þannig að núna er ég samt að reyna að vera nokkuð mikið hrár en borða samt eldaðan mat á móti, kannski eina máltíð á dag.

Fór t.d. á Shalimar í gær með nokkrum sniðugum krökkum og varð aðeins kærulaus. Borðaði dáldið vel sterkan mat og fékk mér meira að segja smá jógúrtsósu með (gróft brot gagnvart veganismanum).
En ég gerði það nú samt og í dag fann ég aðeins fyrir því, meltingin höndlar illa svona mikið sterkt og ég var dáldið vel uppþemdur í dag og smá hræringar í gangi í mallakút.
En það er gott að vita hvað maður á að forðast.

Annars borða ég bara ávexti á morgnana og daginn og finnst það frábært. Fyrir þá sem eru að pæla í að færa sig yfir í hollara mataræði til að vinna bug á Crohn's t.d. held ég að þá sé mjög góð byrjun að venja sig á að borða sæta ávexti á morgnana. Það er örugglega auðveldasta skrefið því að maður er oft svo til í að gera vel á þessum tíma sólarhrings. Að vakna er svona nýtt start og mér allavega finnst lang auðveldast að borða hollta á morgnana og svo fer það að verða erfiðara og erfiðara það sem líður á daginn.
Pínu kannski eins og að setja sér áramótaheit, byrjar af fullum krafti en svo fjarar það smám saman út.

En að borða ávexti á morgnana er snilld, ég fæ mér oftast kannski eins og 2 banana, nokkrar döðlur og kannski epli og perur hakkaðar saman í mixer.
Samkvæmt SHCC (Self Healing Colitis and Crohn's) er talað um að fólk ætti ekki að stöffa sig á morgnana með fullt af mat vegna þess að fyrstu tímana eftir að maður vaknar er líkaminn á hvað mestu spani að hreinsa sig og með því að borða er maður að eyða mikilvægri orku í að melta mat í stað þess að líkaminn geti stundað sitt hreinsunarstarf af fullum krafti.

Brauð og dýraafurðir þarfnast mikillar orku til að melta en vel þroskaðir ávextir eru auðmeltir og ég mæli með að fólk sem er slæmt í maganum, og bara allir, prófi að borða bara ávexti í morgunmat, það er mjög næs!

Svo var smá grein um þetta missjón mitt í Fréttablaðinu á fimmtudaginn, rosa gaman að því! Virðist vera að margir sem eru með þessa sjúkdóma hafi lesið greinina því fólk hefur haft samband og verið að spyrja út í þetta, sem er frábært. Vona að fólk fari að prófa sig áfram í breyttu mataræði til að vinna bug á þessum kvillum!

Sjáumst!

Wednesday, February 1, 2012

Eitt skref aftur og tvö stór áfram.

Nú hef ég aðeins farið fram úr sjálfum mér og þarf því að staldra stundarkorn við.
Eftir 5 daga borðandi bara ávexti, grænmeti og djúsa (allt hrátt) leið mér ekki eins vel og ég hafði vonast til (þó þetta hafi byrjað ansi vel). Bæði var ég ekki nógu góður í maganum og svo ekki alveg 100% viss um hvað ég mætti og mætti ekki borða svo ég borðaði frekar lítið og var sísvangur.

Ég ákvað því að fá mér einn Serrano svona rétt áður en ég dæi úr hungri (alveg vegan samt, hjúkk) og lesa aftur bókina Self Healing Colitis and Crohn's og sjá hvort ég rækist á eitthvað sem ég væri að gera vitlaust.
Bókin fer nokkuð hægt af stað, í byrjun fjallar hún mikið um svefn og svo eru ítarlegar lýsingar á því hvað bólgur nákvæmlegu eru og hvað líkaminn er að reyna að gera þegar hann kallar þær fram.

En svo viti menn, þegar ég las svo aftur kaflann um mataræði (sem er stærstur hluti bókarinnar) þá blasti það við mér trekk í trekk: "Þeir sem hafa einhver sjúkdómseinkenni ættu ALLS EKKI að borða HRÁTT GRÆNMETI né heldur HNETUR og FRÆ."
Ég hafði borðað þónokkuð af salati (kál, gúrku, papriku, sellerí o.fl.) og einnig hnetum svo þetta meikaði allt saman sens.

Þarna var skýringin komin. Hrátt grænmeti og hnetur eru erfiðar í meltingu og fyrir þá sem eru bólgnir og veikir fyrir gera þau bara illt verra.
Nú hafði ég lesið þetta áður en gaf þessu lítinn gaum þar sem ég taldi mig laus við einkenni, sem kemur svo núna í ljós að var ekki rétt hjá mér.

Það sem kemur svo fram er að á meðan "Healing stage" stendur ætti fólk aðeins að borða mikið af sætum ávöxtum, pressuðum grænmetisdjúsum og létt gufusoðnu grænmeti (þ.m.t. sætar kartöflur og kúrbítur).
Ennfremur kom fram að það eru engir tveir eins og því þarf sérhannað plan fyrir hvern og einn.

Ég hef því pantað skype tíma hjá Dr. David Klein (sá sem skrifaði bókina og læknaði sig sjálfur af colitis fyrir mörgum árum og hefur hjálpað fjölmörgum að gera slíkt hið sama) í næstu viku.
Fyrir tímann þarf ég að fylla út langan spurningalista þar sem kemur fram allt það sem mögulega tengist mér og sjúkdómnum og svo hittumst við á Skype, ræðum málin, hann kemur með ýmsar ráðleggingar og svo vinnum við saman að nýju matarplani.

Ég hlakka mjög til að hitta hann og þangað til ætla ég að halda áfram að vera vegan en passa upp á að svelta ekki því það er svo leiðinlegt.

Sunday, January 29, 2012

Breyttar aðstæður

Núna eru liðnir 4 dagar síðan ég hóf vegan hráfæðis prógrammið og mér líður bara mjög vel satt best að segja, a.m.k. í maganum (þá á ég samt við ristilinn).
Hins vegar hef ég átt í smá erfiðleikum að laga mig að þessum breyttu matarvenjum.

Fyrir ykkur sem vitið ekki hvað það þýðir að vera vegan hráfæðisæta þá er það í fyrsta lagi að borða engar dýraafurðir (allt kjöt, fisk, egg, mjólkurvörur og svo er hunang á gráu svæði) og í öðru lagi að ekkert af því sem maður borðar má vera eldað. Ástæður þess eru margar og mun ég tala um þær að einhverju leyti í komandi bloggum.

Að borða á þennan hátt er frekar erfitt, allavega svona í byrjun, og sérstaklega í því samfélagi sem við búum í þar sem nánast allur matur er annaðhvort eldaður, með einhvers konar dýraraafurðum, eða þá bæði.
Ég skil það samt mjög vel að hlutirnir séu svona. Þar spila inn í hefðir, matarúrval á landinu og einnig áróður ýmissa fyrirtækja og stofnana um það hvað fólk ætti og ætti ekki að leggja sér til munns.

Það er því mælt með að fólk færi sig hægt og hægt yfir í slíkt mataræði. Ég gerði það svoleiðis, hætti t.d. að borða kjöt í sumar og byrjaði að drekka græna smoothie-a. Svo fór ég smátt og smátt að minnka mikið steiktan mat, fisk og egg þar til um áramótin að ég hætti alveg í fiskinum. Samtímis hafði ég aukið grænmeti og ávexti í mataræðinu til muna (borðaði MJÖG lítið af ávöxtum áður, held ég sé ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi innbyrt jafnmarga ávexti fyrstu 2 vikurnar eftir að ég byrjaði að drekka smoothie-a í sumar og allt það ár til samans).
Þannig náði ég að laga mig að breyttum aðstæðum í stað þess að snúa öll við einn daginn og fá andlegt og líkamlegt sjokk.

En ég get alveg fullyrt að hætta að borða eldaðan mat er MUN erfiðara en að hætta í kjötinu og fiskinum. Auk þess er ekki mælt með því að ég borði neitt kornmeti heldur og það útilokar ýmis girnileg hrákex og kökur sem venjulegar hráfæðisætur borða.
Annars tekur líka smá tíma að venjast því að borða svona mikið af grænmeti og ávöxtum. Áður fékk maður sér kannski 1 banana og svo 2 brauðsneiðar með einhverju áleggi. Núna þarf ég í staðinn kannski að borða 3 banana til að verða jafn saddur.

En ekki nóg með breytingarnar á fæðutegundum heldur þarf líka að huga að því hverju má blanda saman því það getur skipt gríðarlega miklu máli um hvort matur meltist vel eða ekki. En það ætla ég að tala um næst.

Ég hef ekki farið í Remicade núna í 103 daga. Venjulega hef ég farið á 56 daga fresti en það eru margir sem fara oftar því það dregur oft fljótt úr virkni lyfsins.
Mér var tilkynnt á sínum tíma að ég þyrfti mjög líklega að vera á Remicade eða sambærilegum lyfjum það sem eftir væri ævinnar, þar sem Crohn's sé ólæknandi sjúkdómur. Við skulum sjá til með það.

Friday, January 27, 2012

Kynning á sjálfum mér og Crohn's

Ég heiti Arnar og er með sjúkdóm sem heitir Crohn's. Fyrir ykkur sem þekkið ekki sjúkdóminn þá kallast hann svæðisgarnabólga á íslensku og lýsir sér í bólgum í meltingarveginum. Bólgurnar geta komið upp hvar á þeirri leið sem er en algengastar eru þær í smáþörmum og hluta ristils. Bólgurnar hafa ýmsar afleiðingar í för með sér s.s. kviðverki, niðurgang, þrengsli í meltingarvegi, harðlífi, ígerð, orkuleysi, fistla og getur einnig aftrað eðlilegri upptöku næringarefna af öllu tagi. Semsagt frekar óspennandi sjitt sem enginn nennir að standa í.
Samkvæmt nýjustu tölum eru um 600 manns með sjúkdóminn á Íslandi en líklega eru svipað margir með sjúkdóminn Colitis, sem er náskyldur Crohn's en er staðbundinn við ristilinn.
Af einhverjum orsökum hefur tíðni þessara sjúkdóma aukist til muna á seinni hluta 20. aldar og er fólk ekki á eitt sátt um ástæðu þess.
Hér er hægt að lesa meira um Crohn's: http://www.doktor.is/index.php?option=com_content&view=article&id=455&Itemid=106

Sjálfur greindist ég með sjúkdóminn rétt fyrir jólin 2004. Þá hafði ég verið með hálfgerðan niðurgang í nokkra mánuði og það var ekki fyrr en stjúpmamma mín, sem hafði tekið eftir að ég verslaðist upp, skikkaði mig að láta kanna málið. Ég var ekki með matareitrun og eftir frekar óskemmtilega ristilspeglun lá fyrir að ég væri með Crohn's. Ég hafði aldrei heyrt um sjúkdóminn áður en fékk ágætis útskýringar frá lækninum.

Mér var sagt að þetta væri ólæknandi sjúkdómur og orsakir að mestu leyti ókunnar, talið vera samspil ýmissa þátta s.s. erfða og umhverfis. Hann fullyrti síðan að mataræði væri þessu óviðkomandi en ráðlagði mér að borða unnar kjötvörur og forðast mikið hrátt grænmeti til að setja sem minnst álag á meltingarkerfið.
Síðan var mér sagt að ég hefði um tvennt að velja; taka inn lyf það sem eftir væri eða prófa ákveðinn næringardrykk sem ég yrði að nærast á um ókominn tíma. Fyrir strák sem var nýbyrjaður í menntaskóla hljómaði það ekki vel að mega ekki borða neitt annað en bragðvondan duftsjeik í öll mál og svo mælti læknirinn frekar með lyfjameðferð svo valið var auðvelt fyrir mig.

Á þessum tíma var ég kominn niður í 56 kíló (er 182 á hæð) og var grindhoraður. Ég byrjaði strax á barksterakúr sem sló á bólgurnar og gaf mér aftur matarlyst. Hægt og hægt var skammturinn trappaður niður, ég byrjaði að þyngjast aftur, og þegar kúrinn var búinn tók við lyfið Purinethol sem er venjulega notað sem áframhaldandi lyfjameðferð við vissum týpum af krabbameini, þó í mun stærri skömmtum. Þetta lyf hafði gefist ágætlega við Crohn's og ég átti að taka inn 1 eða 2 pillur á dag um ókominn tíma.

Ég hélt áfram að lifa mínu venjulega lífi einkennalaus þangað til síðla sumars 2007 að mér tók að versna, var kominn með fistla ( http://en.wikipedia.org/wiki/Fistula ) og var stöðugt með niðurgang.
Þá var ég sendur til annars læknis og átti að byrja í annarri og nýrri meðferð með lyfinu Remicade. Það lyf hefur ekki verið lengi á markaði en hafði gefist vel í að halda einkennum niðri og einnig í meðhöndlun fistla. Lyfið er ónæmisbælandi og er gefið í æð 8. hverja viku ef allt er í lagi.

Síðan þá hef ég verið á þessu lyfi og haft það mjög gott. Ég hældi því í hástert og sagði það hafa bjargað lífi mínu, sem það örugglega gerði og er ég enn mjög sáttur að hafa fengið þessa meðferð.

Vandamálið við þennan sjúkdóm og meðferð hans er að hann er talinn ólæknandi og því einblína almenn læknavísindi á að halda honum niðri frekar en að koma í veg fyrir og lækna hann. Útfrá þeim gefnu forsendum er lyf eins og Remicade skársti kosturinn. Þó svo að það sé ónæmisbælandi og geti haft ýmsar misgóðar afleiðingar fyrir líkamann þá er það allavega skárra en að vera með blússandi bólgið meltingarkerfi sem á endanum getur leitt til alvarlegrar vannæringar, krabbameins og dauða ef ekkert er að gert.

En hvað ef það er til lækning? Hvað ef það er hægt að fyrirbyggja sjúkdóminn og losna við hann fyrir fullt og allt?
Sumarið 2011 fékk ég lánaða bókina Green for Life frá vinkonu minni og þar opnaðist fyrir mér nýr heimur. Í bókinni er ítarlega fjallað um grænt grænmeti og kosti þess, sem og ókosti þess að borða kjöt og dýraafurðir. Ég hætti samstundis að borða kjöt og fór að drekka græna smoothie-a í tíma og ótíma.
Ég fann að mér leið strax betur og fór því á fullt að leita að meiri upplýsingum um málið.

Haustið 2011 fann ég svo bókina Self Healing Colitis and Crohn's eftir Dr. David Klein nokkurn. Ég las hana á hundavaði því ég var svo æstur yfir þeim upplýsingum sem hún hafði að geyma.
Í mjög stuttu máli er inntak bókarinnar það að Crohn's og Colitis (ásamt fjöldanum öllum af öðrum sjúkdómum) séu alfarið lífstílstengdir sjúkdómar og á engan hátt ólæknanlegir. David Klein tilheyrir breiðum hópi fólks sem aðhyllist þær kenningar að lífshættir nútímafólks (aðallega matarvenjur) séu orsakir flestra kvilla og þá megi laga með breyttum venjum.

Bókin er mjög ítarlega vægast sagt og tekur á öllu sem máli skiptir. Stærstur hluti hennar fjallar þó um hráan vegan mat og skaðsemi mikillar neyslu á dýraafurðum og eldaðs matar.
Hér er linkur á síðu David Klein http://www.colitis-crohns.com

Bókin talaði beint til mín og núna, eftir nokkurra mánaða umhugsun, hef ég ákvað ég að hella mér alfarið yfir í þennan breytta lífsstíl og hætta á öllum lyfjum.

Tilgangur þessa bloggs verður að halda dagbók yfir það sem gerist á leiðinni og ef það gengur vel þá vonandi opna augu þeirra sem glíma við Crohn's og Colitis og sína að það séu aðrar leiðir færar en hefðbundin læknavísindi vilja meina.

Ég hlakka til að takast á við þetta og vil hvetja öll ykkar sem þekkið fólk með þessa sjúkdóma að benda þeim á bloggið svo þau geti fylgst með framvindu mála.