Wednesday, February 29, 2012

Fyrsta "alvöru" máltíðin

Í gær fór ég með Silju kærustunni minni á lítið hráfæðisnámskeið hjá Sollu Eiríks. Það var haldið á Gló og var í formi fræðslu og sýnikennslu. Mikið af því sem hún talaði um vissi ég nú þegar en það var gaman að fá staðfestingu á ýmsum atriðum frá henni og svo kom líka margt fram sem ég vissi ekki.
Aðalmálið fyrir mig var samt að í lok námskeiðsins fengum við öll hráfæðismáltíð og ég var ekki lítið spenntur yfir því eftir 3 vikur af endalausum bönunum, döðlum og grænmetisdjúsum.
Rétturinn samanstóð af kúrbíts- og kelpnúðlupasta með tómatasósu, pestó og kasjúmajónesi og svo ýmsum góðum salatblöndum með gulrótum, blómkáli, kókos, engifer, kóríander o.fl.
Þessi matur var fáránlega góður og leit svona út:


Í dag hef ég svo borðað meira hrátt grænmeti og liðið mjög vel. Mun samt halda áfram að borða mest ávexti á daginn.

Annars var ég búinn að minnast á hvað ég hef verið uppþemdur og með mikið loft í maganum sem hefur valdið mér töluverðum óþægindum. Ég skildi lítið í þessu en svo benti Silja mér á eitt.
Ég drakk smoothie-a í gríð og erg en hún tók eftir að þegar maður hakkar ávexti (sérstaklega banana) þá myndast mjög mikið loft sem nær ekki að leita upp á yfirborðið. Ég gleypi það því allt með drykknum.
Ég prófaði því að sleppa smoothie-um síðustu 2 daga. Veit ekki hvort það er það eða eitthvað annað en vindverkirnir hættu allavega samstundis og hafa ekki komið aftur síðan:)

Á morgun er svo kynningarfundur í Skógarhlíð 8 á vegum Crohn's og Colitis Samtakanna á Íslandi. Þar verður meltingarlæknir með fyrirlestur sem og skurðlæknir nokkur.
Innan samtakanna hefur myndast matarhópur sem mér hefur verið boðin innganga í og ætlum við að hittast á undan og ræða málin.
Ég hlakka mjög til ræða þessi mismunandi sjónarmið við læknana sem og þá sem eru í svipuðum sporum og ég sjálfur.
Ég hvet alla sem vilja kynna sér málið betur til að mæta.

Saturday, February 25, 2012

Þyngdartap

Jæja núna eru rúmlega 2 vikur liðnar síðan ég hóf healing stage "kúrinn". Mér líður ágætlega, er reyndar ennþá oft með of mikið loft í maganum og því fylgja smá óþægindi. En þetta er allt hluti af hreinsuninni sem er í gangi og það hefur ekki vottað fyrir niðurgangi allan tímann (sem er breyting frá því sem áður var) þannig að ég tek þessu bara með ró.

Ég hef lést um nokkur kíló, veit ekki alveg hvað ég er þungur núna en ég myndi giska á að um 5 kíló séu farin núna. Nú var ég alveg grannur áður þannig að ég virðist vera smá horaður núna.
Þetta hefur valdið vægum áhyggjum hjá vinum og vandamönnum, sem er auðvitað skiljanlegt. Síðast þegar ég léttist mikið var þegar ég greindist með Crohn's og þá horaðist ég gífurlega og var ekki sjón að sjá.
Núna hins vegar er þetta allt annars eðlis. Þá var ég með stöðugan niðurgang en það er ekki málið í dag.
Það sem er í gangi núna er mjög eðlilegt detox þar sem líkaminn fær nú loksins tækifæri til að hreinsa út allt sem hefur safnast fyrir í honum gegnum árin og því fylgir óhjákvæmilega nokkuð þyngdartap. Þetta er skrifað hvað eftir annað í Self Healing Colitis and Crohn's og svo hef ég lesið margar reynslusögur þeirra sem fóru í gegnum sama ferli. Það er því ekkert að óttast.

Monday, February 20, 2012

Líkaminn er magnaður

Ein af grunnstoðum náttúrulækninga (Natural Hygine eða Orthopathy) er sú kenning að ekkert geti læknað líkamann nema hann sjálfur. Eina sem við eigum að gera er að gera honum það kleift með réttu mataræði, hreyfingu o.fl. Ættum í rauninni að "vera ekki fyrir" og ekki trufla hann með því að dæla í okkur óþarfa lyfjum og slæmum mat.
Það er gengið útfrá því að flestöll ef ekki öll lyf (að undanskildum lyfjum við bráðatilfellum) séu skemmandi fyrir líkamann, þó þau geti um tíma litið út fyrir að virka, og að líkaminn læknist ÞRÁTT fyrir þau en ekki VEGNA þeirra.

Þetta er eitthvað sem hin almennu læknavísindi samþykkja ekki og reyna þau í langflestum tilvikum að finna lausnir á vandamálum með lyfjum.

Þetta eru 2 gjörólíkar skoðanir á málefni sem skiptir gríðarlegu miklu máli og er því vert að staldra við og kanna málið vel áður en maður myndar sér skoðun á þessu.

Samfélagið lítur á lyflækningar sem sjálfsagðan hlut. Þú kennir þér einhvers meins, þá færðu lyf. Sjaldnast er reynt að komast að orsökum veikindanna heldur eru einkennin meðhöndluð með einhvers konar efnablöndum, búnum til að fólki.
Svona aðferðir hafa verið við lýði í langan tíma og hafa færst í aukana á síðustu árum. Núorðið er hægt að fá pillur við ótrúlegustu hlutum og svo virðist sem afstaðan sé sú að fólk eigi bara að gera hvað sem þeim dettur í hug og svo ef eitthvað kemur upp á þá sé það trítað með lyfjum. Með öðrum orðum að fólk þurfi ekki að taka neina ábyrgð á eigin heilsu heldur bara vaða áfram hugsunarlaust og láta aðra sjá um að búa til lyf handa sér við hinum ýmsu kvillum sem fylgja lífsstílnum.

Eftir að hafa lesið mér nokkuð vel til um ýmsar kenningar sem lúta að almennri heilsu hef ég orðið margs vísari um starfssemi líkamans.
Líkaminn er óhugnarlega flókið fyrirbæri sem á hverri einustu sekúndu framkvæmir svo margar og flóknar aðgerðir að það er ekki nokkur leið fyrir okkur að skilja hvað er í gangi nema í mjög grófum dráttum.
Samt erum við svo hrokafull að telja að við höfum réttu svörin við heilsuvandamálum ýmis konar þrátt fyrir þessa mjög takmörkuðu vitneskju um líkamann. Með því að búa til ónáttúruleg lyf og dæla þeim í okkur erum við í raun að segja að við vitum betur en náttúran sem hefur í milljónir ára þróað okkur og gert okkur að því sem við erum.
Þessu er oft líkt saman við mann sem fálmar út í myrkrið í algjörri óvissu í leit að ljósrofanum.

Við eigum ansi langt í land með að komast að leyndardómum náttúrunnar og á meðan held ég að það sé best að leyfa henni að vinna sitt verk í friði svo við vinnum henni og okkur sjálfum ekki meiri skaða en þörf er á.

Thursday, February 16, 2012

Fyrsta vikan á healing stage

Eftir fundinn síðastliðinn fimmtudag ákvað ég að taka þetta föstum tökum og fara eftir því sem David sagði í einu og öllu, bæði því sem stóð í bókinni og því sem hann sagði á fundinum.
Strax á laugardaginn leið mér MIKLU betur, eiginlega bara ótrúlega vel. Ég trúði því eiginlega ekki. Maturinn var greinilega að meltast fullkomlega því ég var ekkert uppþemdur með loft í maganum og klósettferðirnar í toppstandi.

Það sem ég hef verið að borða síðan þá er semsagt nánast eingöngu smoothie-ar. Fyrst bý ég til djús úr t.d. eplum, perum, vínberjum, gúrku, sellerí eða gulrótum og svo blanda ég því saman við fullt af bönunum og döðlum í mixer og drekk eins og ég eigi lífið að leysa. Þannig fæ ég öll vítamín, steinefni og amínósýrur sem ég þar og einnig fullt af orku.
Í kvöldmat hef ég svo verið að fá mér gufusoðið grænmeti. Þetta borðaði ég t.d. í gær:


Svo eftir 5 daga að borða alltaf gufusoðnar sætar kartöflur og papriku fór ég að bæta brokkolí við en þá fannst mér eins og maginn fylltist aftur dáldið af lofti (gerjun og rotnun).
Ég hef aldrei verið mikið fyrir soðið grænmeti og í gær fékk ég alveg upp í kok af því. Leið ekki vel, varð hálf flökurt bara. Svo er líka annað með að borða svona soðið grænmeti; ég má helst ekki borða ávexti fyrr en 6 tímum seinna svo þetta nái allt að meltast vel (annars er hætta á að þetta gerjist með ávöxtunum í maganum) og þá verð ég oft svangur á kvöldin, sem er ekki gaman.

Þannig að í dag borðaði ég bara smoothies með grænmetisdjúsum í dag og líður miklu betur. Sendi honum svo email og spurði hvort það væri ekki í lagi að borða það frekar bara og sleppa alveg þessu soðna dóti. Fæ vonandi svar bráðum.

En allavega þá líður mér miklu betur en fyrir viku síðan og er mjög spenntur fyrir framhaldinu.

Ein pæling í lokin svo. Þegar ég sagði lækninum mínum frá því að ég ætlaði að hætta á Remicade og prófa þetta í staðinn þá studdi hann mig í þeirri ákvörðun en sagði samt að með því tæki ég ákveðna áhættu.
Það er að vissu leyti satt en svo er líka hægt að líta á það svona:

Remicade er "ungt" lyf sem lítil langtímareynsla hefur fengist á. Það bælir niður ónæmiskerfið og dregur þannig úr vörnum líkamans og trítar aðeins afleiðingarnar en ekki orsakirnar.
Það sem ég er að gera núna er að borða hollan og góðan mat beint frá náttúrunni, matinn sem mannkynið hefur borðað nánast allan tímann sem það hefur verið til. Það mataræði sem var borðað á þeim tíma sem helstu framfarir í heila mannsins áttu sér stað og það mataræði sem var borðað ÁÐUR en allir helstu nútímasjúkdómar lætu á sér kræla s.s. crohn's og colitis, sykursýki 2 og krabbamein.

Þegar ég horfi á þetta svona er nokkuð ljóst hvar áhættan liggur.

Monday, February 13, 2012

Fundurinn með Dr. David Klein

Síðasta fimmtudag átti ég Skype fund með nýja "lækninum" mínum honum David Klein.
Upphaflega átti fundurinn að vera á þriðjudegi í síðustu viku en hann býr á Hawaii og þar geisaði einhver stormur það kvöld og við þurftum að fresta um tvo daga.
Fundurinn var mjög góður, ég tók hann upp og ég ætla að skrifa niður helstu hluti sem við töluðum um:

-Ég lýsti fyrir honum hvernig mér liði (var þá búinn að vera frekar uppþemdur og ekki alveg nógu góður í maganum).
-Sagði honum hvað ég hefði borðað og hann sagði mér að sleppa kíví, mangó og öllum súrum ávöxtum í bili.
-Ráðlagði mér að búa til mikið af sellerí-gulrótar-epla-vínberja-peru-salat-gúrkudjús í djúsvél.
-Sagði honum að ég hefði borðað dáldið af hrísgrjónum, hnetum og avókadó en hann sagði að ég ætti alls ekki að borða það á meðan líkaminn er ennþá að lagast (en sleppa hrísgrjónum samt alveg).
-Sleppa alveg öllu kryddi, salti, pipar, lauk og chili (if it burns my mouth it's gonna burn my colon, eins og hann sagði).
-Sagði mér frá hráfæðis-jóga-festivali í Danmörku sem heitir Fresh Food Festival, sem ég er búinn að ákveða að fara á næsta sumar.
-Ráðlagði mér, og sagði að það hljómaði kannski skringilega, að fara frekar einstaka sinnum í stuttan ljósatíma yfir dimmustu mánuðina til að fá D-vítamín. Betra að fá það gegnum húðina heldur en í pillum.
-Sleppa ferskum kryddjurtum á meðan healing stage stendur.
-Eina bætiefnið sem hann mælti með var duft úr bygggrasi (eða þá að drekka hveitigrasdjús af og til).
-Söl og annar sjávargróður er góður útaf ýmsum steinefnum og snefilefnum en slæmt vegna magns eiturefna (sjávargróður er hreinsistöð hafsins og dregur í sig eiturefnin), salts og einnig erfiðleika við að melta. Frekar að sleppa því.
-Sagði mér ýmislegt um eldaðan mat og benti mér á greinar. Mun tala um það í næstu bloggum.
-Hann borðar avókadó, hnetur og fræ bara einu sinni í viku. Það er nóg fita.
-Alls ekki borða hrátt grænmeti eins og er, bara djúsa og gufusoðið í kvöldmat.
-Fylgja Vegan Healing Diet Plan eins og stendur í bókinni Self Healing Colitis and Crohn's í sirka 4 vikur. 1. vikuna þarf ég að hakka allt í mixer, og djúsa grænmetið og harðari ávexti.
-Spurði hann hvort hann væri einhverntíma slæmur í maganum og hann sagðist einstaka sinnum finna aðeins fyrir sjúkdómnum ef hann borðaði of mikið af hnetum og fræjum.
-Ráðlagði mér að leggja hráar hnetur og fræ í bleyti í nokkra tíma, hella svo vatninu af og leyfa þeim að spíra í 24 tíma áður en ég borða þær (eftir healing stage).
-Sagði eftir 6 mánuði væri hugsanlega í lagi að fá sér bjór af og til en helst að sleppa því. En að það myndi ekki drepa mig allavega.
-Sagði að lyf við Crohn's væru bara að halda niðri einkennum og gerðu bara illt verra.

Ég segi ykkur svo betur frá hvernig þetta hefur gengið í næsta bloggi.

Saturday, February 11, 2012

Smoothie time!

Hérna er morgunmaturinn minn í dag:

Djús í djúsvél: hálf gúrka, slatti af sellerí, ca. 30 vínber, 2 epli.
Svo er það hakkað saman í mixer með 5 bönunum og 4 döðlum.
Sjúklega næs!

Tuesday, February 7, 2012

Hvaðan fæ ég prótein?

Þessi spurning er væntanlega sú sem oftast kemur upp í umræðunni um grænmetisætur og þá sérstaklega ef um veganisma er að ræða: "Hvar færðu prótein ef þú borðar ekkert kjöt, fisk né mjólkurvörur?".
Fyrir um ári síðan hefði ég spurt eins (og það er skiljanlegt að fólk velti þessu fyrir sér) en eftir að ég fór að lesa mér vel til um málið varð ég margs vísari.

Nú vita flestir að hnetur og fræ innihalda nokkuð magn af próteinum en í raun gætum við samt alveg sleppt þeim en samt fengið meira en nóg af próteinum.
Ástæðan er sú að að í flestu grænmeti og ávöxtum er svipað mikið magn af próteinum og í móðurmjólkinni, eða um 8%. Málið er bara að þau eru í formi amínósýra.
Öll prótein eru gerð úr löngum keðjum af amínósýrum sem síðan þarf að brjóta niður í ferli sem þarfnast mjög mikillar orku. Svo er þeim aftur raðað saman í lifrinni í þau prótein sem við þurfum.
Próteinin í t.d. vel þroskuðum ávöxtum eru því aðgengileg og þarfnast lítillar orku að melta á móti því að melta dýraprótein sem er mjög erfitt ferli.
Ef það er ekki nóg inniheldur hrátt grænmeti og ávextir ensím sem eru ekkert annað en prótín og einnig eru kjarnsýrur (úr amínósýrum) í hverri einustu plöntufrumu.


Allt frá fyrstu tíð hefur okkur verið kennt að við þurfum að borða kjöt til að fá prótein og maður gleypti við því mjög lengi án þess að efast neitt um málið.
Fyrirtæki keppast við að troða þessum upplýsingum ofan í fólk og úr verður mikill bissness. Svo virðist sem mikil próteinneysla sé það allra mikilvægasta sem ætti að hafa í huga þegar kemur að næringu.
Staðreyndin er samt sú að próteinskortur er nánast óþekkt fyrirbæri og bendir jafnvel margt til þess að mikil neysla á próteinríkum mat geti leitt til ýmissa algengra og alvarlegra kvilla. Ástæða þess er sú að mjög próteinríkur matur er oftar en ekki fituríkur sömuleiðis.

Svo finnst mér líka áhugavert að pæla í því hvað væri þá eiginlega málið með t.d. górillur og naut ef engin prótein væru í grænmetisfæði. Þau lifa eingöngu á plöntum en eru vöðvafjöll með meiru.

En allavega þá er ég að fara á Skype fund með David Klein kl 22 í kvöld. Er vægast sagt spenntur, hann mun væntanlega troðfylla mig af einhverju góðum fróðleik, svara spurningum sem ég hef og búa til glænýtt "healing" matarplan sem ég mun styðjast við á komandi vikum.

Það sem ég ætla m.a. að spyrja hann út í er:

- Hvaðan fæ ég helst D-vítamín (því ég fæ svo lítið úr sólinni á Íslandi)
- Er í lagi að borða ferskar kryddjurtir? (því krydd almennt er ertandi fyrir meltingarkerfið)
- Söl eru mjög kalkrík en ekki mælt með að borða þau á meðan healing stage stendur þar sem þau innihalda grófar trefjar. Væri í lagi að pressa fersk söl í djús?
- Er í alvöru nánast ómögulegt að melta elduð prótein?
- Má ég borða súra ávexti á healing stage?
- Nú er ekki mælt með að borða hrátt og gróft grænmeti á meðal bólgur er til staðar. Hvað með ef ég hakka það í mixer?

Svo mun ég láta ykkur vita hvernig fór!

Friday, February 3, 2012

Morgunmatur

Núna ríkir hálfgert millibilsástand hjá mér. Eins og ég sagði síðast ákvað ég að bíða aðeins með að gerast 100% hrár þangað til eftir skypefundinn með David Klein. Var ekki alveg viss um hvað ég var að gera og fannst réttast að bíða eftir að fá almennilegt matarplan sem væri sérsniðið að mínum þörfum, á miklu auðveldara með að gera hluti ef ég veit nákvæmlega hvað ég á að gera.
Þannig að núna er ég samt að reyna að vera nokkuð mikið hrár en borða samt eldaðan mat á móti, kannski eina máltíð á dag.

Fór t.d. á Shalimar í gær með nokkrum sniðugum krökkum og varð aðeins kærulaus. Borðaði dáldið vel sterkan mat og fékk mér meira að segja smá jógúrtsósu með (gróft brot gagnvart veganismanum).
En ég gerði það nú samt og í dag fann ég aðeins fyrir því, meltingin höndlar illa svona mikið sterkt og ég var dáldið vel uppþemdur í dag og smá hræringar í gangi í mallakút.
En það er gott að vita hvað maður á að forðast.

Annars borða ég bara ávexti á morgnana og daginn og finnst það frábært. Fyrir þá sem eru að pæla í að færa sig yfir í hollara mataræði til að vinna bug á Crohn's t.d. held ég að þá sé mjög góð byrjun að venja sig á að borða sæta ávexti á morgnana. Það er örugglega auðveldasta skrefið því að maður er oft svo til í að gera vel á þessum tíma sólarhrings. Að vakna er svona nýtt start og mér allavega finnst lang auðveldast að borða hollta á morgnana og svo fer það að verða erfiðara og erfiðara það sem líður á daginn.
Pínu kannski eins og að setja sér áramótaheit, byrjar af fullum krafti en svo fjarar það smám saman út.

En að borða ávexti á morgnana er snilld, ég fæ mér oftast kannski eins og 2 banana, nokkrar döðlur og kannski epli og perur hakkaðar saman í mixer.
Samkvæmt SHCC (Self Healing Colitis and Crohn's) er talað um að fólk ætti ekki að stöffa sig á morgnana með fullt af mat vegna þess að fyrstu tímana eftir að maður vaknar er líkaminn á hvað mestu spani að hreinsa sig og með því að borða er maður að eyða mikilvægri orku í að melta mat í stað þess að líkaminn geti stundað sitt hreinsunarstarf af fullum krafti.

Brauð og dýraafurðir þarfnast mikillar orku til að melta en vel þroskaðir ávextir eru auðmeltir og ég mæli með að fólk sem er slæmt í maganum, og bara allir, prófi að borða bara ávexti í morgunmat, það er mjög næs!

Svo var smá grein um þetta missjón mitt í Fréttablaðinu á fimmtudaginn, rosa gaman að því! Virðist vera að margir sem eru með þessa sjúkdóma hafi lesið greinina því fólk hefur haft samband og verið að spyrja út í þetta, sem er frábært. Vona að fólk fari að prófa sig áfram í breyttu mataræði til að vinna bug á þessum kvillum!

Sjáumst!

Wednesday, February 1, 2012

Eitt skref aftur og tvö stór áfram.

Nú hef ég aðeins farið fram úr sjálfum mér og þarf því að staldra stundarkorn við.
Eftir 5 daga borðandi bara ávexti, grænmeti og djúsa (allt hrátt) leið mér ekki eins vel og ég hafði vonast til (þó þetta hafi byrjað ansi vel). Bæði var ég ekki nógu góður í maganum og svo ekki alveg 100% viss um hvað ég mætti og mætti ekki borða svo ég borðaði frekar lítið og var sísvangur.

Ég ákvað því að fá mér einn Serrano svona rétt áður en ég dæi úr hungri (alveg vegan samt, hjúkk) og lesa aftur bókina Self Healing Colitis and Crohn's og sjá hvort ég rækist á eitthvað sem ég væri að gera vitlaust.
Bókin fer nokkuð hægt af stað, í byrjun fjallar hún mikið um svefn og svo eru ítarlegar lýsingar á því hvað bólgur nákvæmlegu eru og hvað líkaminn er að reyna að gera þegar hann kallar þær fram.

En svo viti menn, þegar ég las svo aftur kaflann um mataræði (sem er stærstur hluti bókarinnar) þá blasti það við mér trekk í trekk: "Þeir sem hafa einhver sjúkdómseinkenni ættu ALLS EKKI að borða HRÁTT GRÆNMETI né heldur HNETUR og FRÆ."
Ég hafði borðað þónokkuð af salati (kál, gúrku, papriku, sellerí o.fl.) og einnig hnetum svo þetta meikaði allt saman sens.

Þarna var skýringin komin. Hrátt grænmeti og hnetur eru erfiðar í meltingu og fyrir þá sem eru bólgnir og veikir fyrir gera þau bara illt verra.
Nú hafði ég lesið þetta áður en gaf þessu lítinn gaum þar sem ég taldi mig laus við einkenni, sem kemur svo núna í ljós að var ekki rétt hjá mér.

Það sem kemur svo fram er að á meðan "Healing stage" stendur ætti fólk aðeins að borða mikið af sætum ávöxtum, pressuðum grænmetisdjúsum og létt gufusoðnu grænmeti (þ.m.t. sætar kartöflur og kúrbítur).
Ennfremur kom fram að það eru engir tveir eins og því þarf sérhannað plan fyrir hvern og einn.

Ég hef því pantað skype tíma hjá Dr. David Klein (sá sem skrifaði bókina og læknaði sig sjálfur af colitis fyrir mörgum árum og hefur hjálpað fjölmörgum að gera slíkt hið sama) í næstu viku.
Fyrir tímann þarf ég að fylla út langan spurningalista þar sem kemur fram allt það sem mögulega tengist mér og sjúkdómnum og svo hittumst við á Skype, ræðum málin, hann kemur með ýmsar ráðleggingar og svo vinnum við saman að nýju matarplani.

Ég hlakka mjög til að hitta hann og þangað til ætla ég að halda áfram að vera vegan en passa upp á að svelta ekki því það er svo leiðinlegt.