Wednesday, March 7, 2012

Fundur hjá Crohn's og Colitis samtökunum

Síðasta fimmtudag fór ég á fund hjá Crohn's og Colitis samtökunum á Íslandi, eða CCU eins og þau kalla sig. Tveir læknar héldu þar kynningar, annar lyflæknir en hinn skurðlæknir. Þeir ræddu báðir um nýjungar innan síns fags og það kom í ljós að ýmsar tegundir lyfja eru notaðar gegn þessum sjúkdómum. Lyflæknirinn sagði að ástand hvers sjúklings væri metið hverju sinni og viðeigandi lyf prófað. Ef það virkaði ekki væru ýmis önnur lyf í stöðunni sem hægt væri að reyna á.

Ég hlustaði á ræðuna en þar sem ég hef nú ekki mikla trú lengur á lyfjum við Crohn's var áhugi minn nokkuð takmarkaður.

Ein af fyrstu glærunum sem læknirinn notaðist við hafði að geyma lista yfir þá hópa lyfja sem notast er við. Sá neðsti hét "Náttúrulyf" og sá fannst mér mest spennandi og ákvað því að spyrja betur út í það.
Það kom í ljós að náttúrulyf er flokkur sem inniheldur allt það sem fólk ákveður að prófa við sjúkdómnum en eru ekki viðurkennd beint af hefðbundnum læknavísinum. Þannig að í rauninni inniheldur flokkurinn ekki neitt ákveðið.

Læknirinn sagði okkur að hann og kollegar hans gætu bara unnið með efni sem væru vísindalega rannsökuð, t.d. lyf eins og Remicade. Mjög lítið er til af slíkum rannsóknum varðandi áhrif mataræðis á Crohn's og því engin vísindi fyrir lækninn til að styðjast við. Hann sagði mér ennfremur að nánast allar rannsóknir sem gerðar væru á lyfjum væru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjunum sjálfum.

Umfangsmiklar rannsóknir kosta gríðarlega peninga og það er einmitt það sem lyfjafyrirtækin eiga. Svo er það auðvitað þeirra hagur að rannsaka lyf sem þeir geta svo selt og stórgrætt á. Þetta er bara bissness eins og hver annar.

Það er því ekki skrýtið að fáar rannsóknir séu til sem sýna fram á áhrif mataræðis á Crohn's. Það er einfaldlega enginn sem vill fjármagna slíkar rannsóknir. Ég meina það getur enginn grætt peninga á að fólk fari að borða hollari mat!
Til lengri tíma litið myndi nú reyndar allt samfélagið græða gríðarlega á því að fólk væri heilbrigðara en það virðist ekki vera hugsunin þessa stundina.

Svo barst mataræði í tal og nokkrir úr hópnum spurðu lyflækninn út í áhrif þess, enda búið að starta matarhóp innan samtakanna í kjölfar vaxandi áhuga á viðfangsefninu.
Svör hans voru helst á þá leið að mataræði skipti einhverju máli en fólk væri svo mismunandi og því erfitt að gefa almenn ráð.
Það er auðvitað rétt að fólk er ekki allt eins en mér finnst þetta dáldið ódýr lausn. Þó svo að einhver munur sé á fólki hlýtur að gilda það sama um flesta í mörgum tilfellum. En þá komum við aftur að því sem er eða er ekki vísindalega sannað og þetta því komið út fyrir verksvið lækna.

Það eru þó fjölmargar sögur af fólki sem hefur læknast af þessum sjúkdómum með breyttu mataræði og maður þarf bara að ákveða sjálfur hverjum maður trúir og hvað maður gerir í þessum málum.

Ég kem svo með öppdeit á næstu dögum á því hvernig mér gengur og líður.

No comments:

Post a Comment