Monday, March 19, 2012

Samsetning máltíða

Þangað til snemma á þessu ári hef ég aldrei pælt neitt í samsetningu þeirra máltíða sem ég borða. Ég hafði í raun ekki hugmynd að það skipti neinu máli hvernig mat væri blandað saman og því leiddi ég ekki hugann að því.
Mér finnst líklegt að fólk almennt pæli ekki mikið í þessu og því langar mig aðeins að skrifa niður það sem ég hef lært síðustu vikurnar.

Blöndun hráefna hefur mikil áhrif á meltingu matarins og getur í raun haft mikið um það að segja hvort maturinn meltist yfir höfuð.
Það sem kannski flestir þekkja úr þessum fræðum er að ekki sé gott að blanda saman kolvetnum (sterkju) og prótínum. Það sem gerist þegar við borðum sterkju er að kirtlar í munninum seyta ensími sem heitir ptyalin (mjög gott orð) sem brýtur niður sterkjuna í maltósa (tvísykra). Á meðan þetta gerist er sýrustig munnsins og magans frekar hátt (basískt).
Þegar líkaminn meltir prótín (t.d. hnetur og avókadó) þá breytist sýrustigið og verður lágt (súrt) því þannig verður líkaminn að vera þegar slíkur matur er meltur.

Þegar þetta tvennt er borðað reynir líkaminn samtímis að hafa lágt og hátt sýrustig sem veldur því að hvorugt efnið meltist vel - sterkjan gerjast og prótínin rotna. Það orsakar svo mikla gasmyndun í líkamanum (þegar sykrur gerjast er aukaafurðin illa lyktandi og oft eitrað gas) og ýmsar aðrar meltingartruflanir. Einnig nær líkaminn þ.a.l. ekki að nýta sér almennilega næringuna úr matnum sem auðvitað er slæmt.

Það sama gerist þegar súrir ávextir eru borðaðir með sterkju, nema að í ofanálag hindra þeir beinlínis seytingu ptyalins í munninum þannig að sterkjan meltist enn verr.

Hér koma svo helstu leiðbeiningar um samsetningu matar sem ég hef lesið mér til um:

-Ávexti ætti aðeins að borða alveg sér eða með grænu laufmeti, sellerí eða gúrku
-Melónur ætti að borða alveg sér (þær eru svo vatnsmiklar og meltast á svipuðum hraða og djús. Ef t.d. bananar eru borðaðir með er hætta á melónurnar staldri lengur við í maganum með bönununum og þá eykst hætta á að þær gerjist).
-Sítrúsávexti ætti að borða a.m.k. hálftíma á undan öðrum ávöxtum.
-Sterkju (kartöflur, korn, gulrætur..) er hægt að borða með öllu grænu laufmeti, sellerí, gúrku og papriku en EKKI með tómötum, hvorki sætum né súrum ávöxtum, hnetum, fræjum eða avókadó.
-Fitu- og prótínríkur matur (hnetur, fræ og avókadó) blandast vel með grænu laufmeti, sellerí og gúrku og LITLU magni af súrum ávöxtum (þ.m.t. tómötum). EKKI ætti að blanda því saman við sterkju og sæta ávexti.

Ef þessu er fylgt ætti maturinn að meltast vel og örugglega án þess að gerjast eða rotna í meltingarkerfinu.
Kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur er ekki talað um í þessum fræðum þar sem þessar afurðir eru taldar óæskilegar.

Það tekur smá tíma fyrir þessar upplýsingar að síast inn en fljótlega verður þetta leikur einn.

Monday, March 12, 2012

Mín líðan þessa dagana

Núna eru bráðum 5 mánuðir síðan ég fór síðast í Remicade. Þann 9. febrúar byrjaði ég á þessu svokallaða healing stage þar sem ég borðaði einungis sæta ávexti, grænmetis- og ávaxtadjúsa og smá gufusoðið grænmeti. Það stóð yfir í 3 vikur.
Eftir það byrjaði ég að borða meira hrátt grænmeti, avókadó, hnetur og fræ (og ávexti auðvitað) og hef gert það núna í um 2 vikur.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið 100% hrár né 100% vegan þessar síðustu 2 vikur. Hef einu sinni fengið mér grænmetishamborgara (ekki gott að borða hvítt hveiti, sykur né steiktan/grillaðan mat) og svo grænmetispizzu (slæmt: hvítt hveiti og ostur).
Ég hef líka drukkið áfengi tvisvar sinnum.

Þrátt fyrir þessar nokkru freistingar sem ég hef fallið fyrir verð ég að segja að mér líður mjög vel. Ég hef haldið mataræðinu nánast alveg vegan og í kringum 80% hrátt. Passa mig svo að borða ekki of mikið af korni, hnetum og fræjum. Bara svona í hófi.

Ég man ekki eftir að hafa verið svona góður í maganum áður. Enginn niðurgangur og loft í maganum í algjöru lágmarki. Það mætti því segja að ég sé algjörlega einkennalaus í dag.

Þetta er betra en ég þorði að vona og er ég því mjög glaður yfir þessum árangri. Ég þarf samt að vera á varðbergi fyrsta árið því þá er líkaminn ennþá nokkuð viðkvæmur og það þarf kannski ekki mikið til að ég verði slæmur aftur.

Læknirinn minn bað mig svo um að hitta sig seinni partinn í apríl og þá verður tekin blóðprufa og létt skoðun. Hann vildi hitta mig fyrr en síðar ef það kæmi í ljós að ég þyrfti aftur að byrja á Remicade.
En að byrja á Remicade aftur er eitthvað sem ég vil ekki gera og ég hef trú á því að geta verið laus við lyf fyrir fullt og allt.

Ég mæli enn og aftur með bókinni Self Healing Colitis and Crohn's eftir David Klein. Í henni eru mjög ítarlegar upplýsingar um allt sem viðkemur þessum sjúkdómum og svo nákvæmt matarplan sem ég hef fylgt.
Ef þið viljið nálgast bókina þá get ég sent ykkur hana á tölvutæku formi (.pdf). Sendið mér póst á sullumbulli@gmail.com (þarf bráðum að skipta um addressu, ég veit) og þá sendi ég ykkur hana um hæl.

Wednesday, March 7, 2012

Fundur hjá Crohn's og Colitis samtökunum

Síðasta fimmtudag fór ég á fund hjá Crohn's og Colitis samtökunum á Íslandi, eða CCU eins og þau kalla sig. Tveir læknar héldu þar kynningar, annar lyflæknir en hinn skurðlæknir. Þeir ræddu báðir um nýjungar innan síns fags og það kom í ljós að ýmsar tegundir lyfja eru notaðar gegn þessum sjúkdómum. Lyflæknirinn sagði að ástand hvers sjúklings væri metið hverju sinni og viðeigandi lyf prófað. Ef það virkaði ekki væru ýmis önnur lyf í stöðunni sem hægt væri að reyna á.

Ég hlustaði á ræðuna en þar sem ég hef nú ekki mikla trú lengur á lyfjum við Crohn's var áhugi minn nokkuð takmarkaður.

Ein af fyrstu glærunum sem læknirinn notaðist við hafði að geyma lista yfir þá hópa lyfja sem notast er við. Sá neðsti hét "Náttúrulyf" og sá fannst mér mest spennandi og ákvað því að spyrja betur út í það.
Það kom í ljós að náttúrulyf er flokkur sem inniheldur allt það sem fólk ákveður að prófa við sjúkdómnum en eru ekki viðurkennd beint af hefðbundnum læknavísinum. Þannig að í rauninni inniheldur flokkurinn ekki neitt ákveðið.

Læknirinn sagði okkur að hann og kollegar hans gætu bara unnið með efni sem væru vísindalega rannsökuð, t.d. lyf eins og Remicade. Mjög lítið er til af slíkum rannsóknum varðandi áhrif mataræðis á Crohn's og því engin vísindi fyrir lækninn til að styðjast við. Hann sagði mér ennfremur að nánast allar rannsóknir sem gerðar væru á lyfjum væru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjunum sjálfum.

Umfangsmiklar rannsóknir kosta gríðarlega peninga og það er einmitt það sem lyfjafyrirtækin eiga. Svo er það auðvitað þeirra hagur að rannsaka lyf sem þeir geta svo selt og stórgrætt á. Þetta er bara bissness eins og hver annar.

Það er því ekki skrýtið að fáar rannsóknir séu til sem sýna fram á áhrif mataræðis á Crohn's. Það er einfaldlega enginn sem vill fjármagna slíkar rannsóknir. Ég meina það getur enginn grætt peninga á að fólk fari að borða hollari mat!
Til lengri tíma litið myndi nú reyndar allt samfélagið græða gríðarlega á því að fólk væri heilbrigðara en það virðist ekki vera hugsunin þessa stundina.

Svo barst mataræði í tal og nokkrir úr hópnum spurðu lyflækninn út í áhrif þess, enda búið að starta matarhóp innan samtakanna í kjölfar vaxandi áhuga á viðfangsefninu.
Svör hans voru helst á þá leið að mataræði skipti einhverju máli en fólk væri svo mismunandi og því erfitt að gefa almenn ráð.
Það er auðvitað rétt að fólk er ekki allt eins en mér finnst þetta dáldið ódýr lausn. Þó svo að einhver munur sé á fólki hlýtur að gilda það sama um flesta í mörgum tilfellum. En þá komum við aftur að því sem er eða er ekki vísindalega sannað og þetta því komið út fyrir verksvið lækna.

Það eru þó fjölmargar sögur af fólki sem hefur læknast af þessum sjúkdómum með breyttu mataræði og maður þarf bara að ákveða sjálfur hverjum maður trúir og hvað maður gerir í þessum málum.

Ég kem svo með öppdeit á næstu dögum á því hvernig mér gengur og líður.