Sunday, January 29, 2012

Breyttar aðstæður

Núna eru liðnir 4 dagar síðan ég hóf vegan hráfæðis prógrammið og mér líður bara mjög vel satt best að segja, a.m.k. í maganum (þá á ég samt við ristilinn).
Hins vegar hef ég átt í smá erfiðleikum að laga mig að þessum breyttu matarvenjum.

Fyrir ykkur sem vitið ekki hvað það þýðir að vera vegan hráfæðisæta þá er það í fyrsta lagi að borða engar dýraafurðir (allt kjöt, fisk, egg, mjólkurvörur og svo er hunang á gráu svæði) og í öðru lagi að ekkert af því sem maður borðar má vera eldað. Ástæður þess eru margar og mun ég tala um þær að einhverju leyti í komandi bloggum.

Að borða á þennan hátt er frekar erfitt, allavega svona í byrjun, og sérstaklega í því samfélagi sem við búum í þar sem nánast allur matur er annaðhvort eldaður, með einhvers konar dýraraafurðum, eða þá bæði.
Ég skil það samt mjög vel að hlutirnir séu svona. Þar spila inn í hefðir, matarúrval á landinu og einnig áróður ýmissa fyrirtækja og stofnana um það hvað fólk ætti og ætti ekki að leggja sér til munns.

Það er því mælt með að fólk færi sig hægt og hægt yfir í slíkt mataræði. Ég gerði það svoleiðis, hætti t.d. að borða kjöt í sumar og byrjaði að drekka græna smoothie-a. Svo fór ég smátt og smátt að minnka mikið steiktan mat, fisk og egg þar til um áramótin að ég hætti alveg í fiskinum. Samtímis hafði ég aukið grænmeti og ávexti í mataræðinu til muna (borðaði MJÖG lítið af ávöxtum áður, held ég sé ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi innbyrt jafnmarga ávexti fyrstu 2 vikurnar eftir að ég byrjaði að drekka smoothie-a í sumar og allt það ár til samans).
Þannig náði ég að laga mig að breyttum aðstæðum í stað þess að snúa öll við einn daginn og fá andlegt og líkamlegt sjokk.

En ég get alveg fullyrt að hætta að borða eldaðan mat er MUN erfiðara en að hætta í kjötinu og fiskinum. Auk þess er ekki mælt með því að ég borði neitt kornmeti heldur og það útilokar ýmis girnileg hrákex og kökur sem venjulegar hráfæðisætur borða.
Annars tekur líka smá tíma að venjast því að borða svona mikið af grænmeti og ávöxtum. Áður fékk maður sér kannski 1 banana og svo 2 brauðsneiðar með einhverju áleggi. Núna þarf ég í staðinn kannski að borða 3 banana til að verða jafn saddur.

En ekki nóg með breytingarnar á fæðutegundum heldur þarf líka að huga að því hverju má blanda saman því það getur skipt gríðarlega miklu máli um hvort matur meltist vel eða ekki. En það ætla ég að tala um næst.

Ég hef ekki farið í Remicade núna í 103 daga. Venjulega hef ég farið á 56 daga fresti en það eru margir sem fara oftar því það dregur oft fljótt úr virkni lyfsins.
Mér var tilkynnt á sínum tíma að ég þyrfti mjög líklega að vera á Remicade eða sambærilegum lyfjum það sem eftir væri ævinnar, þar sem Crohn's sé ólæknandi sjúkdómur. Við skulum sjá til með það.

Friday, January 27, 2012

Kynning á sjálfum mér og Crohn's

Ég heiti Arnar og er með sjúkdóm sem heitir Crohn's. Fyrir ykkur sem þekkið ekki sjúkdóminn þá kallast hann svæðisgarnabólga á íslensku og lýsir sér í bólgum í meltingarveginum. Bólgurnar geta komið upp hvar á þeirri leið sem er en algengastar eru þær í smáþörmum og hluta ristils. Bólgurnar hafa ýmsar afleiðingar í för með sér s.s. kviðverki, niðurgang, þrengsli í meltingarvegi, harðlífi, ígerð, orkuleysi, fistla og getur einnig aftrað eðlilegri upptöku næringarefna af öllu tagi. Semsagt frekar óspennandi sjitt sem enginn nennir að standa í.
Samkvæmt nýjustu tölum eru um 600 manns með sjúkdóminn á Íslandi en líklega eru svipað margir með sjúkdóminn Colitis, sem er náskyldur Crohn's en er staðbundinn við ristilinn.
Af einhverjum orsökum hefur tíðni þessara sjúkdóma aukist til muna á seinni hluta 20. aldar og er fólk ekki á eitt sátt um ástæðu þess.
Hér er hægt að lesa meira um Crohn's: http://www.doktor.is/index.php?option=com_content&view=article&id=455&Itemid=106

Sjálfur greindist ég með sjúkdóminn rétt fyrir jólin 2004. Þá hafði ég verið með hálfgerðan niðurgang í nokkra mánuði og það var ekki fyrr en stjúpmamma mín, sem hafði tekið eftir að ég verslaðist upp, skikkaði mig að láta kanna málið. Ég var ekki með matareitrun og eftir frekar óskemmtilega ristilspeglun lá fyrir að ég væri með Crohn's. Ég hafði aldrei heyrt um sjúkdóminn áður en fékk ágætis útskýringar frá lækninum.

Mér var sagt að þetta væri ólæknandi sjúkdómur og orsakir að mestu leyti ókunnar, talið vera samspil ýmissa þátta s.s. erfða og umhverfis. Hann fullyrti síðan að mataræði væri þessu óviðkomandi en ráðlagði mér að borða unnar kjötvörur og forðast mikið hrátt grænmeti til að setja sem minnst álag á meltingarkerfið.
Síðan var mér sagt að ég hefði um tvennt að velja; taka inn lyf það sem eftir væri eða prófa ákveðinn næringardrykk sem ég yrði að nærast á um ókominn tíma. Fyrir strák sem var nýbyrjaður í menntaskóla hljómaði það ekki vel að mega ekki borða neitt annað en bragðvondan duftsjeik í öll mál og svo mælti læknirinn frekar með lyfjameðferð svo valið var auðvelt fyrir mig.

Á þessum tíma var ég kominn niður í 56 kíló (er 182 á hæð) og var grindhoraður. Ég byrjaði strax á barksterakúr sem sló á bólgurnar og gaf mér aftur matarlyst. Hægt og hægt var skammturinn trappaður niður, ég byrjaði að þyngjast aftur, og þegar kúrinn var búinn tók við lyfið Purinethol sem er venjulega notað sem áframhaldandi lyfjameðferð við vissum týpum af krabbameini, þó í mun stærri skömmtum. Þetta lyf hafði gefist ágætlega við Crohn's og ég átti að taka inn 1 eða 2 pillur á dag um ókominn tíma.

Ég hélt áfram að lifa mínu venjulega lífi einkennalaus þangað til síðla sumars 2007 að mér tók að versna, var kominn með fistla ( http://en.wikipedia.org/wiki/Fistula ) og var stöðugt með niðurgang.
Þá var ég sendur til annars læknis og átti að byrja í annarri og nýrri meðferð með lyfinu Remicade. Það lyf hefur ekki verið lengi á markaði en hafði gefist vel í að halda einkennum niðri og einnig í meðhöndlun fistla. Lyfið er ónæmisbælandi og er gefið í æð 8. hverja viku ef allt er í lagi.

Síðan þá hef ég verið á þessu lyfi og haft það mjög gott. Ég hældi því í hástert og sagði það hafa bjargað lífi mínu, sem það örugglega gerði og er ég enn mjög sáttur að hafa fengið þessa meðferð.

Vandamálið við þennan sjúkdóm og meðferð hans er að hann er talinn ólæknandi og því einblína almenn læknavísindi á að halda honum niðri frekar en að koma í veg fyrir og lækna hann. Útfrá þeim gefnu forsendum er lyf eins og Remicade skársti kosturinn. Þó svo að það sé ónæmisbælandi og geti haft ýmsar misgóðar afleiðingar fyrir líkamann þá er það allavega skárra en að vera með blússandi bólgið meltingarkerfi sem á endanum getur leitt til alvarlegrar vannæringar, krabbameins og dauða ef ekkert er að gert.

En hvað ef það er til lækning? Hvað ef það er hægt að fyrirbyggja sjúkdóminn og losna við hann fyrir fullt og allt?
Sumarið 2011 fékk ég lánaða bókina Green for Life frá vinkonu minni og þar opnaðist fyrir mér nýr heimur. Í bókinni er ítarlega fjallað um grænt grænmeti og kosti þess, sem og ókosti þess að borða kjöt og dýraafurðir. Ég hætti samstundis að borða kjöt og fór að drekka græna smoothie-a í tíma og ótíma.
Ég fann að mér leið strax betur og fór því á fullt að leita að meiri upplýsingum um málið.

Haustið 2011 fann ég svo bókina Self Healing Colitis and Crohn's eftir Dr. David Klein nokkurn. Ég las hana á hundavaði því ég var svo æstur yfir þeim upplýsingum sem hún hafði að geyma.
Í mjög stuttu máli er inntak bókarinnar það að Crohn's og Colitis (ásamt fjöldanum öllum af öðrum sjúkdómum) séu alfarið lífstílstengdir sjúkdómar og á engan hátt ólæknanlegir. David Klein tilheyrir breiðum hópi fólks sem aðhyllist þær kenningar að lífshættir nútímafólks (aðallega matarvenjur) séu orsakir flestra kvilla og þá megi laga með breyttum venjum.

Bókin er mjög ítarlega vægast sagt og tekur á öllu sem máli skiptir. Stærstur hluti hennar fjallar þó um hráan vegan mat og skaðsemi mikillar neyslu á dýraafurðum og eldaðs matar.
Hér er linkur á síðu David Klein http://www.colitis-crohns.com

Bókin talaði beint til mín og núna, eftir nokkurra mánaða umhugsun, hef ég ákvað ég að hella mér alfarið yfir í þennan breytta lífsstíl og hætta á öllum lyfjum.

Tilgangur þessa bloggs verður að halda dagbók yfir það sem gerist á leiðinni og ef það gengur vel þá vonandi opna augu þeirra sem glíma við Crohn's og Colitis og sína að það séu aðrar leiðir færar en hefðbundin læknavísindi vilja meina.

Ég hlakka til að takast á við þetta og vil hvetja öll ykkar sem þekkið fólk með þessa sjúkdóma að benda þeim á bloggið svo þau geti fylgst með framvindu mála.