Saturday, August 11, 2012

Langanir og stórir skammtar

Eftir að ég fór aftur að verða slæmur í maganum fyrir nokkrum vikum síðan fór ég að pæla hvað hefði eiginlega gerst. Ég vissi það alveg þannig séð - ég hafði einfaldlega ekki borðað rétta matinn fyrir mig heldur smátt og smátt dottið í gamla farið.
Spurningin var samt miklu meira AF HVERJU ég hafði ekki gert eins og ég átti að gera.

Hluti ástæðunnar er líklegast sá að ég prófaði að borða smá brauð kannski og fleira í þeim dúr og þoldi það alveg til að byrja með og hélt því að það væri í lagi.
Innst inni vissi ég samt að þetta átti ég ekki að gera og því fannst mér aðal ástæðan hljóta að liggja annars staðar.

Þegar ég svo var á Fresh Food Festival fékk ég nýjan vinkil á málið. Einn daginn sat ég á fyrirlestri hjá Douglas Graham þar sem hann talaði um cravings, svona mjög sterka löngun í einhverja ákveðna gerð matar. Eitthvað sem allir fá en leysa á mismunandi hátt.
Algengast er að fá fólk fái löngun í saltan og feitan mat og verður þá oftar en ekki að fá sér til að seðja þörfina.
Einnig er algengt að fá löngun í brauð og kornmeti (sterkjuríkan mat) ýmis konar.

Þetta kannaðist ég mjög vel við og var því spenntur að heyra meira um málið.

Hann sagði að svona langanir væru eðlilegar en fólk gripi einfaldlega ekki í rétta matinn á slíkum stundum.
Saltlöngunina væri auðveldlega hægt að seðja með því að borða grænt grænmeti og sterkjuþörfina með því að borða ávexti.

Í framhaldi af því fór hann að tala um magn þess matar sem við borðum. Fólk sem borðar einungis hrátt grænmeti, ávexti og hnetur yrði að borða mun meira en það oft gerir sér grein fyrir. Flest erum við alinn upp við að stærsti hluti máltíðarinnar sé kjöt og korn af einhverju tagi en svo smá grænmeti til hliðar. Svo grípur fólk í einn og einn ávöxt milli mála.

Þessari hugsun þarf fólk að breyta sem ætlar sér að skipta um mataræði. Í stað þess að borða kannski eitt epli og nokkra melónubita í morgunmat þarf kannski að borða 3 epli og heila melónu.
Salat þarf kannski að vera heill salathaus, heil gúrka, 10 tómatar og þar fram eftir götunum.

Með þessu móti nærðu að uppfylla allar þær kröfur sem líkaminn gerir og slærð á allar skyndilanganir í saltan, feitan og sterkjuríkan mat.

Þessi breyting þarf samt að gerast hægt. Maður hoppar ekki beint úr því að borða 2 banana í morgunmat í það að borða 10, en smám saman ferðu að ráða við meira magn.

Ég hlakka því til að háma í mig risastór salöt og kúffulla ávaxtadiska í náinni framtíð.

Wednesday, August 8, 2012

Aftur á byrjunarreit

Það eru liðnir nokkrir mánuðir síðan ég skrifaði síðast og í millitíðinni hafa nokkrir hlutir gerst.
Hér kemur lýsing á þeirri atburðarrás sem hefur átt sér stað:

Eftir 3 vikur á healing diet (bananar, döðlur, grænmetisdjúsar og gufusoðnar sætar kartöflur og gulrætur) hóf ég að borða "venjulegan" mat aftur.
Eins og mælt var með í Self Healing Colitis and Crohn's átti það ekki að vera "bara eitthvað" heldur ákveðið mataræði sem samanstendur af ávöxtum og hráu grænmeti að stærstum hluta en auk þess hnetum og fræjum af og til.
Þetta er oft kallað 80/10/10 eftir frægri bók eftir Douglas Graham.

Með því að borða eftir þessum "reglum" áttu Crohn's og Colitis sjúklingar að tileinka sér nýjan lífsstíl sem tryggði þeim áframhaldandi bata og góða heilsu um ókomin ár. Í raun á með þessu mataræði að vera hægt að losna við sjúkdómana fyrir fullt og allt.

Þetta gerði ég hins vegar ekki (nema alveg í byrjun) og fór smátt og smátt að leyfa mér að borða of mikið af korni, unnum vörum, salti, steiktum og mikið elduðum mat, áfengi, sumum mjólkurvörum o.fl.

Í byrjun gekk þetta ágætlega þar sem ég var orðinn alveg einkennalaus eftir healing diet-inn og þoldi kerfið því meira álag (einnig var nokkuð stutt síðan ég fór í lyfjagjöf og áhrifa þess líklega enn gætt í líkamanum).
En svo fór ástandið að versna, löturhægt þó, og ég tók því ekki vel eftir því.
Ég kláraði skólann í vor og fór að vinna á stað þar sem ég vann langar vaktir undir miklu álagi og þar tók ástandið að versna enn frekar.
Ég hélt að þessu hlyti nú að linna fyrr en síðar og hugsaði mér að ferð mín á Fresh Food Festival myndi koma mér aftur á rétta sporið.

Þegar á hátíðina var komið var ég fullur vissu um að nú myndi allt lagast. En á síðasta degi hennar var ég enn jafn slæmur og þá fór að læðast að mér sá grunur að ég þyrfti að gera eitthvað enn drastískara í málinu.
Eftir að hafa hugsað málið vel og rætt við kærustuna mína komst ég að þeirri niðurstöðu um að hætta í vinnunni þegar heim kæmi og einbeita mér eingöngu að því að koma heilsunni í lag.
Ég sá þetta sem eina tímann sem ég hafði því svo byrja ég í nýju og krefjandi námi í haust sem fylgir óhjákvæmilegt stress og álag.

Þegar heim kom tókum við 7 daga djúsföstu og algjöra hvíld sem ég tel að hafi gert mér mjög gott.
Ég byrjaði svo aftur að borða fasta fæðu en fór of fljótt í hráa grænmetið og var strax byrjaður að leyfa mér að borða brauð, drekka smá áfengi, steiktan og mikið eldaðan mat og mjólkurvörur.

Núna í dag, 3 vikum seinna, er ég orðinn mjög slæmur aftur, niðurgangur og verkir og fleira í þeim dúr.

Ég sá svo tvö viðtöl á forsíðu þessarar heimasíðu http://therawfoodcure.com/ (Jacob og Sjef) þar sem tveir menn segja sína sögu hvernig þeir unnu bug á Crohn's með hjálp bókarinnar eftir David Klein og þeirri lífsstílsbreytingu sem fylgdi í kjölfarið.

Núna er ég aftur byrjaður að lesa bókina, er á fyrsta degi í healing diet og er staðráðinn í að halda ótrauður áfram í átt að betri heilsu!

IT'S ON!

Thursday, May 17, 2012

Opið bréf til umhverfisráðherra - Erfðabreytt matvæli

Eftir að hafa lesið mikið um mat og heilsu síðustu misserin hef ég fræðst þonokkuð um erfabreytt matvæli.

Í þeim fræðum er iðulega mælt gegn slíkri ræktun. Bæði er það vegna slæmra áhrifa þeirra á heilsu manna og dýra en einnig vegna mögulegra breytinga á náttúrunni sem slíkar afurðir kunna að valda, breytinga sem í flestum tilfellum munu reynast óafturkræfar og að sama skapi mögulega hættulegar vistkerfinu í heild sinni.

Því ákvað ég að sækja ráðstefnu á vegum Umhverfisráðuneytisins sem bar nafnið "Erfðabreytt ræktun - Slepping og dreifing".

Mér til mikillar gremju og reiði var einungis fjallað um málið frá sjónarhóli þeirra sem styðja slíka ræktun og varð það kveikjan að þessu bréfi sem ég skrifaði og sendi svo umhverfisráðherra í tölvupósti:


Sæl Svandís

Ég, undirritaður, sat alla rúmu 4 klukkutímana á ráðstefnunni "Erfðabreytt ræktun - slepping og dreifing". 
Mér fannst ótrúlegt að hlusta á hvern ræðumann á eftir öðrum lofsama erfðabreytta ræktun og gera hið minnsta úr mögulegum afleiðingum neyslu manna og dýra á slíkum vörum.

Það er biturlegt að hlusta á slíka einhliða umræðu um þetta gríðarlega umdeilda og mikilvæga mál.

Þó flestir sérfræðinganna á mælendaskrá töluðu með erfðabreyttri ræktun gátu þeir nú samt allir viðurkennt og sammælst um að þegar erfðabreyttu lífverurnar kæmust út í náttúruna (mikil hætta á slíku við útiræktun) væri engin leið að taka slíkt til baka. Enn fremur fullyrtu flestir að enginn vissi heldur hvort þessar lífverur væru betur eða verr í stakk búnar til að lifa af en sín óerfðabreyttu systkini í náttúrunni.
 
Með því segja þeir að sá möguleiki sé fyrir hendi að erfðabreyttar plöntur t.d. sem sleppa út í náttúruna gætu allt eins reynst hæfari en þær óbreyttu og tekið yfir. Ef þær erfðabreyttu reynast svo stórskaðlegar heilsu fólks og dýra, eða umhverfinu er lítið sem ekkert hægt að gera í málinu.

Þennan mjög svo raunhæfa möguleika er stórhættulegt að vanmeta og því tel ég mikið gáleysi að fjalla um málið einvörðungu frá sjónarhóli þeirra sem styðja þessa tækni (sem er hugsanlega að hluta til sami hópur og hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þessu máli, en það er nú efni í annað bréf og í það skipti til Iðnaðar- og Landbúnaðarráðuneytisins).

Einn ræðumanna gekk lengra en aðrir og fullyrti að engar rannsóknir sýndu fram á slæmar afleiðingar slíkrar ræktunar, allavega engar "alvöru rannsóknir".

Nú á síðasta ári sótti ég undirritaður fyrirlestur Vandana Shiva frá Indlandi. Hún er menntaður eðlisfræðingur og heimspekingur og hefur skrifað yfir 500 vísindagreinar og 20 bækur, þar af mikið um erfðabreyttar nytjavörur, sem hún berst einnig hart gegn. Auk þess hefur hún unnið með fólki sem rannsakar áhrif slíkra nytjavara og komið að fjölmörgum slíkum rannsóknum sjálf.

Háskóli Íslands, helsta menntastofnun landsins, stóð fyrir komu hennar til landsins.
Með því að fjalla um málið frá þessu eina sjónahorni tel ég að starfi Háskólans, Vandana Shiva og síðast en ekki síst þjóðinni sjálfri hafi verið sýnd vanvirðing.
Af hverju segi ég það? Vegna þess að með því er lítið gert úr starfi allra þeirra sem vinna að rannsóknum á skaðsemi erfðabreyttra matvæla og einnig vegna þess að með því er heilsu þjóðarinnar mögulega stefnt í hættu.

Eftir ráðstefnuna fóru að birtast fyrirsagnir eins og þessi hér: http://ruv.is/frett/erfdabreytt-matvaeli-haettulaus .
Að fullyrða slíkt í stærsta fréttamiðli landsins getur ekki aðeins talist heimskulegt og rangt heldur einnig mögulega stórhættulegt.
Ég vona innilega að þessar fréttir síðustu daga komi ekki til með að festast í höfðum landsmanna.

Til að svo verði ekki vil ég skora á þig að stíga fram, gera athugasemd við þennan fréttaflutning. Þannig væri hægt að beina athyglinni að hinni hlið málsins. 
Á þeirri hlið er nefnilega fólk, vísindamenn jafnt sem almenningur, sem lætur sér annt um heilsu manna og dýra, umhverfið og framtíð jarðarinnar allrar.

Virðingarfyllst,
Arnar Pétursson

Tuesday, April 10, 2012

Kæruleysi og afturför

Núna eru akkurat liðnar 6 vikur síðan ég byrjaði aftur að borða "venjulegri" mat. Þar áður hafði ég í 3 vikur borðað ekkert nema sæta ávexti, grænmetisdjúsa og gufusoðið grænmeti af og til. Þessar 3 vikur köllum við Healing Stage og eftir það fannst mér ég aldrei hafa verið betri í maganum áður.

Ég byrjaði svo frekar rólega að færa mig meira yfir í hrátt grænmeti, hnetur og fræ og þess háttar, og leið áfram mjög vel.
Svo smám saman varð ég kærulausari, fékk mér grænmetishamborgara og meiri skyndibita (meira að segja franskar), steiktan og mikið eldaðan mat, oft of mikið af hnetum og fræjum og drakk of mikið áfengi í páskafríinu.

Síðustu vikuna var ég hvað kærulausastur og núna finn ég fyrir því. Lausari hægðir þar sem líkaminn nær ekki að vinna vel úr því sem ég hef sett ofan í hann.

Í dag er ég með hálsbólgu, frekar slappur og ekki eins góður í maganum og ég vildi vera. Ég tel ástæðuna að stórum hluta vera sukkið síðustu 2 eða 3 vikurnar.

Í gær ákvað ég því að taka nokkur skref til baka og borðaði bara ávexti og grænmetisdjúsa. Ég mun halda því áfram í dag (eða jafnvel bara fasta, drekka fullt af vatni og hvíla mig vel eins og ráðlagt er að gera í Self Healing Colitis and Crohn's) og sjá svo hvað setur.

Það verður gaman að sjá hvort og hvernig ástandið lagast eftir að ég núna byrja aftur að borða það sem mér var ráðlagt.

Já leiðin að góðri heilsu er greinilega ekki bein og langt frá því að vera hindranalaus. En með reynslunni lærum við örugglega smám saman að velja og hafna þangað til við komumst á þann stað sem við viljum.
Maður má bara ekki missa sjónar á markmiðinu.

Tuesday, April 3, 2012

Eldaður Matur

Eldaður matur þykir fullkomlega sjálfsagður í örugglega öllum samfélögum heimsins.
Það er gaman að elda, það kemur góð lykt og oft er það beinlínis nauðsynleg aðferð svo við getum notið ýmissa matartegunda og melt.
Þegar við lifum í þannig samfélagi þar sem a.m.k. helmingur alls sem við borðum er eldað er samt þess virði að velta því aðeins fyrir sér hvaða áhrif hiti og eldur hefur á mat.

Erfitt er að fullyrða nákvæmlega um hvenær fólk hóf að hita matinn sinn en öruggt er að við höfum ekki gert það alla tíð. Lengst af borðuðum við bara það sem líkaminn okkar gat melt óeldað, þ.e. ávexti aðallega og svo grænmeti, hnetur og fræ.
Það var á þessu fæði sem heilinn í okkur þróaðist hvað mest og varð frábrugðinn heila annarra dýra að miklu leyti.

Í kjölfarið fórum við að dreifast um alla jörðina og geta búið á stöðum sem annars hefðu verið gjörsamlega óbýl fyrir tegund eins og okkur. Ástæður þess eru aðallega þær að við gátum búið okkur til föt og skjól, og höfðum eld til að halda á okkur hita og til að elda kjöt á þeim stöðum þar sem ávextir og grænmeti voru af skornum skammti.

Þetta hélt í okkur lífinu og er aðalástæða þess hvers vegna við búum t.d. á Íslandi í dag. Ávextir og grænmeti voru í gegnum aldirnar af mjög skornum skammti og engan veginn nóg til að halda heilli þjóð uppi, þó smá væri. En fólk hafði dýrin og það borðaði af þeim kjötið og afurðir ýmis konar, ásamt soðnum kartöflum.

Þessu er ég afar þakklátur og væri væntanlega ekki að skrifa þennan texta ef forferður mínir hefðu ekki verið duglegir við að borða það sem þurfti til að lifa af.



Þessar matarvenjur þróuðust svo smám saman og urðu að hefðum, burtséð frá því hvort maturinn sé góður eða slæmur fyrir okkur.

Núna í augnablikinu búum við hins vegar svo vel að geta valið algjörlega það sem við látum ofan í okkur. Við þurfum ekki að sætta okkur við súrsaða hrútspunga og soðnar kartöflur í hvert mál til þess eins að lifa af (þó vissulega finnist mörgum það gott).

Rannsóknir sýna að þegar matur er eldaður breytast ýmis næringarefni í honum og skemmast í mörgum tilfellum. Prótein t.d. breytast og uppbygging þeirra skemmist í ferli sem kallast á ensku denaturation. Þetta ferli fer einnig fram við eðlilega meltingu í maga og görnum en ekki á sama hátt.
Eftir að hitinn hefur umbreytt próteinunum er afar erfitt að melta þau eðlilega og því er oft talað um að eina hættan á alvöru próteinskorti sé þegar fólk neyti aðeins eldaðra matvæla.

Sama gildir um vítamín sem einnig skemmast við hita og steinefni sem breytast úr því að vera á lífrænu og meltanlegu formi yfir í ómeltanleg og oft varasöm efni.

Flestir vísindamenn eru sammála um að hiti og eldur skemmi mat en ekki eru allir sammála um hversu mikið. Þeir sem helst styðja ágæti eldunar benda á að án aðferðarinnar gætum við ekki borðað mat eins og kjöt, kornvörur og sumar tegundir grænmetis.
En þá er hægt að spyrja sig, eigum við þá eitthvað að vera að borða þessar afurðir?

Náttúrunar gerir klárlega ekki ráð fyrir að við eldum matinn okkar og því eru öll þau efni sem við þörfnumst fólgin í plöntum sem við getum borðað hráar.
Með því að segja að við verðum að borða ákveðnar afurðir s.s. kjöt og kornvörur til að fá öll næringarefni erum við að vanmeta náttúruna og það er eitthvað sem við ættum að fara varlega í, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum núna.

Ekki samt misskilja, ég er ekki að segja að eldaður matur sé eitraður og að enginn ætti að borða hann. Ég er bara að líta á málið út frá ákveðnu sjónarmiði sem er nýtt fyrir mér og mér finnst sjálfum meika sens. Ég borða alveg eldaðan mat en þó mun meira hrátt en áður og stefnan er að verða 100% hrár í framtíðinni.

Monday, March 19, 2012

Samsetning máltíða

Þangað til snemma á þessu ári hef ég aldrei pælt neitt í samsetningu þeirra máltíða sem ég borða. Ég hafði í raun ekki hugmynd að það skipti neinu máli hvernig mat væri blandað saman og því leiddi ég ekki hugann að því.
Mér finnst líklegt að fólk almennt pæli ekki mikið í þessu og því langar mig aðeins að skrifa niður það sem ég hef lært síðustu vikurnar.

Blöndun hráefna hefur mikil áhrif á meltingu matarins og getur í raun haft mikið um það að segja hvort maturinn meltist yfir höfuð.
Það sem kannski flestir þekkja úr þessum fræðum er að ekki sé gott að blanda saman kolvetnum (sterkju) og prótínum. Það sem gerist þegar við borðum sterkju er að kirtlar í munninum seyta ensími sem heitir ptyalin (mjög gott orð) sem brýtur niður sterkjuna í maltósa (tvísykra). Á meðan þetta gerist er sýrustig munnsins og magans frekar hátt (basískt).
Þegar líkaminn meltir prótín (t.d. hnetur og avókadó) þá breytist sýrustigið og verður lágt (súrt) því þannig verður líkaminn að vera þegar slíkur matur er meltur.

Þegar þetta tvennt er borðað reynir líkaminn samtímis að hafa lágt og hátt sýrustig sem veldur því að hvorugt efnið meltist vel - sterkjan gerjast og prótínin rotna. Það orsakar svo mikla gasmyndun í líkamanum (þegar sykrur gerjast er aukaafurðin illa lyktandi og oft eitrað gas) og ýmsar aðrar meltingartruflanir. Einnig nær líkaminn þ.a.l. ekki að nýta sér almennilega næringuna úr matnum sem auðvitað er slæmt.

Það sama gerist þegar súrir ávextir eru borðaðir með sterkju, nema að í ofanálag hindra þeir beinlínis seytingu ptyalins í munninum þannig að sterkjan meltist enn verr.

Hér koma svo helstu leiðbeiningar um samsetningu matar sem ég hef lesið mér til um:

-Ávexti ætti aðeins að borða alveg sér eða með grænu laufmeti, sellerí eða gúrku
-Melónur ætti að borða alveg sér (þær eru svo vatnsmiklar og meltast á svipuðum hraða og djús. Ef t.d. bananar eru borðaðir með er hætta á melónurnar staldri lengur við í maganum með bönununum og þá eykst hætta á að þær gerjist).
-Sítrúsávexti ætti að borða a.m.k. hálftíma á undan öðrum ávöxtum.
-Sterkju (kartöflur, korn, gulrætur..) er hægt að borða með öllu grænu laufmeti, sellerí, gúrku og papriku en EKKI með tómötum, hvorki sætum né súrum ávöxtum, hnetum, fræjum eða avókadó.
-Fitu- og prótínríkur matur (hnetur, fræ og avókadó) blandast vel með grænu laufmeti, sellerí og gúrku og LITLU magni af súrum ávöxtum (þ.m.t. tómötum). EKKI ætti að blanda því saman við sterkju og sæta ávexti.

Ef þessu er fylgt ætti maturinn að meltast vel og örugglega án þess að gerjast eða rotna í meltingarkerfinu.
Kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur er ekki talað um í þessum fræðum þar sem þessar afurðir eru taldar óæskilegar.

Það tekur smá tíma fyrir þessar upplýsingar að síast inn en fljótlega verður þetta leikur einn.