Í þeim fræðum er iðulega mælt gegn slíkri ræktun. Bæði er það vegna slæmra áhrifa þeirra á heilsu manna og dýra en einnig vegna mögulegra breytinga á náttúrunni sem slíkar afurðir kunna að valda, breytinga sem í flestum tilfellum munu reynast óafturkræfar og að sama skapi mögulega hættulegar vistkerfinu í heild sinni.
Því ákvað ég að sækja ráðstefnu á vegum Umhverfisráðuneytisins sem bar nafnið "Erfðabreytt ræktun - Slepping og dreifing".
Mér til mikillar gremju og reiði var einungis fjallað um málið frá sjónarhóli þeirra sem styðja slíka ræktun og varð það kveikjan að þessu bréfi sem ég skrifaði og sendi svo umhverfisráðherra í tölvupósti:
Sæl Svandís
Ég, undirritaður, sat alla rúmu 4 klukkutímana á ráðstefnunni "Erfðabreytt ræktun - slepping og dreifing".
Mér fannst ótrúlegt að hlusta á hvern ræðumann á eftir öðrum lofsama erfðabreytta ræktun og gera hið minnsta úr mögulegum afleiðingum neyslu manna og dýra á slíkum vörum.
Það er biturlegt að hlusta á slíka einhliða umræðu um þetta gríðarlega umdeilda og mikilvæga mál.
Þó flestir sérfræðinganna á mælendaskrá töluðu með erfðabreyttri ræktun gátu þeir nú samt allir viðurkennt og sammælst um að þegar erfðabreyttu lífverurnar kæmust út í náttúruna (mikil hætta á slíku við útiræktun) væri engin leið að taka slíkt til baka. Enn fremur fullyrtu flestir að enginn vissi heldur hvort þessar lífverur væru betur eða verr í stakk búnar til að lifa af en sín óerfðabreyttu systkini í náttúrunni.
Með því segja þeir að sá möguleiki sé fyrir hendi að erfðabreyttar plöntur t.d. sem sleppa út í náttúruna gætu allt eins reynst hæfari en þær óbreyttu og tekið yfir. Ef þær erfðabreyttu reynast svo stórskaðlegar heilsu fólks og dýra, eða umhverfinu er lítið sem ekkert hægt að gera í málinu.
Þennan mjög svo raunhæfa möguleika er stórhættulegt að vanmeta og því tel ég mikið gáleysi að fjalla um málið einvörðungu frá sjónarhóli þeirra sem styðja þessa tækni (sem er hugsanlega að hluta til sami hópur og hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þessu máli, en það er nú efni í annað bréf og í það skipti til Iðnaðar- og Landbúnaðarráðuneytisins).
Einn ræðumanna gekk lengra en aðrir og fullyrti að engar rannsóknir sýndu fram á slæmar afleiðingar slíkrar ræktunar, allavega engar "alvöru rannsóknir".
Nú á síðasta ári sótti ég undirritaður fyrirlestur Vandana Shiva frá Indlandi. Hún er menntaður eðlisfræðingur og heimspekingur og hefur skrifað yfir 500 vísindagreinar og 20 bækur, þar af mikið um erfðabreyttar nytjavörur, sem hún berst einnig hart gegn. Auk þess hefur hún unnið með fólki sem rannsakar áhrif slíkra nytjavara og komið að fjölmörgum slíkum rannsóknum sjálf.
Háskóli Íslands, helsta menntastofnun landsins, stóð fyrir komu hennar til landsins.
Með því að fjalla um málið frá þessu eina sjónahorni tel ég að starfi Háskólans, Vandana Shiva og síðast en ekki síst þjóðinni sjálfri hafi verið sýnd vanvirðing.
Af hverju segi ég það? Vegna þess að með því er lítið gert úr starfi allra þeirra sem vinna að rannsóknum á skaðsemi erfðabreyttra matvæla og einnig vegna þess að með því er heilsu þjóðarinnar mögulega stefnt í hættu.
Eftir ráðstefnuna fóru að birtast fyrirsagnir eins og þessi hér: http://ruv.is/frett/erfdabreytt-matvaeli-haettulaus .
Að fullyrða slíkt í stærsta fréttamiðli landsins getur ekki aðeins talist heimskulegt og rangt heldur einnig mögulega stórhættulegt.
Ég vona innilega að þessar fréttir síðustu daga komi ekki til með að festast í höfðum landsmanna.
Til að svo verði ekki vil ég skora á þig að stíga fram, gera athugasemd við þennan fréttaflutning. Þannig væri hægt að beina athyglinni að hinni hlið málsins.
Á þeirri hlið er nefnilega fólk, vísindamenn jafnt sem almenningur, sem lætur sér annt um heilsu manna og dýra, umhverfið og framtíð jarðarinnar allrar.
Virðingarfyllst,
Arnar Pétursson
Hey fékkstu einhver viðbrögð við bréfinu frá Svandísi eða öðrum?
ReplyDeleteOg hvernig gengur ?
Kv. Lesandi sem langar að verða raw vegan.
Hæhæ
ReplyDeleteJá hún svaraði og sagðist vilja halda umræðunni eins opinni og hægt væri og benti svo á að Umhverfisráðuneytið hefði m.a. styrkt komu Vandana Shiva til Íslands.
Mér hefur gengið upp og ofan í þessu og var einmitt að pæla í að byrja að blogga aðeins aftur.
Mæli með að tékka á bókum eins og Green for Life eða The China Study til að fá innblástur til að gerast raw vegan.