Eldaður matur þykir fullkomlega sjálfsagður í örugglega öllum samfélögum heimsins.
Það er gaman að elda, það kemur góð lykt og oft er það beinlínis nauðsynleg aðferð svo við getum notið ýmissa matartegunda og melt.
Þegar við lifum í þannig samfélagi þar sem a.m.k. helmingur alls sem við borðum er eldað er samt þess virði að velta því aðeins fyrir sér hvaða áhrif hiti og eldur hefur á mat.
Erfitt er að fullyrða nákvæmlega um hvenær fólk hóf að hita matinn sinn en öruggt er að við höfum ekki gert það alla tíð. Lengst af borðuðum við bara það sem líkaminn okkar gat melt óeldað, þ.e. ávexti aðallega og svo grænmeti, hnetur og fræ.
Það var á þessu fæði sem heilinn í okkur þróaðist hvað mest og varð frábrugðinn heila annarra dýra að miklu leyti.
Í kjölfarið fórum við að dreifast um alla jörðina og geta búið á stöðum sem annars hefðu verið gjörsamlega óbýl fyrir tegund eins og okkur. Ástæður þess eru aðallega þær að við gátum búið okkur til föt og skjól, og höfðum eld til að halda á okkur hita og til að elda kjöt á þeim stöðum þar sem ávextir og grænmeti voru af skornum skammti.
Þetta hélt í okkur lífinu og er aðalástæða þess hvers vegna við búum t.d. á Íslandi í dag. Ávextir og grænmeti voru í gegnum aldirnar af mjög skornum skammti og engan veginn nóg til að halda heilli þjóð uppi, þó smá væri. En fólk hafði dýrin og það borðaði af þeim kjötið og afurðir ýmis konar, ásamt soðnum kartöflum.
Þessu er ég afar þakklátur og væri væntanlega ekki að skrifa þennan texta ef forferður mínir hefðu ekki verið duglegir við að borða það sem þurfti til að lifa af.
Þessar matarvenjur þróuðust svo smám saman og urðu að hefðum, burtséð frá því hvort maturinn sé góður eða slæmur fyrir okkur.
Núna í augnablikinu búum við hins vegar svo vel að geta valið algjörlega það sem við látum ofan í okkur. Við þurfum ekki að sætta okkur við súrsaða hrútspunga og soðnar kartöflur í hvert mál til þess eins að lifa af (þó vissulega finnist mörgum það gott).
Rannsóknir sýna að þegar matur er eldaður breytast ýmis næringarefni í honum og skemmast í mörgum tilfellum. Prótein t.d. breytast og uppbygging þeirra skemmist í ferli sem kallast á ensku denaturation. Þetta ferli fer einnig fram við eðlilega meltingu í maga og görnum en ekki á sama hátt.
Eftir að hitinn hefur umbreytt próteinunum er afar erfitt að melta þau eðlilega og því er oft talað um að eina hættan á alvöru próteinskorti sé þegar fólk neyti aðeins eldaðra matvæla.
Sama gildir um vítamín sem einnig skemmast við hita og steinefni sem breytast úr því að vera á lífrænu og meltanlegu formi yfir í ómeltanleg og oft varasöm efni.
Flestir vísindamenn eru sammála um að hiti og eldur skemmi mat en ekki eru allir sammála um hversu mikið. Þeir sem helst styðja ágæti eldunar benda á að án aðferðarinnar gætum við ekki borðað mat eins og kjöt, kornvörur og sumar tegundir grænmetis.
En þá er hægt að spyrja sig, eigum við þá eitthvað að vera að borða þessar afurðir?
Náttúrunar gerir klárlega ekki ráð fyrir að við eldum matinn okkar og því eru öll þau efni sem við þörfnumst fólgin í plöntum sem við getum borðað hráar.
Með því að segja að við verðum að borða ákveðnar afurðir s.s. kjöt og kornvörur til að fá öll næringarefni erum við að vanmeta náttúruna og það er eitthvað sem við ættum að fara varlega í, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum núna.
Ekki samt misskilja, ég er ekki að segja að eldaður matur sé eitraður og að enginn ætti að borða hann. Ég er bara að líta á málið út frá ákveðnu sjónarmiði sem er nýtt fyrir mér og mér finnst sjálfum meika sens. Ég borða alveg eldaðan mat en þó mun meira hrátt en áður og stefnan er að verða 100% hrár í framtíðinni.
No comments:
Post a Comment