Saturday, August 11, 2012

Langanir og stórir skammtar

Eftir að ég fór aftur að verða slæmur í maganum fyrir nokkrum vikum síðan fór ég að pæla hvað hefði eiginlega gerst. Ég vissi það alveg þannig séð - ég hafði einfaldlega ekki borðað rétta matinn fyrir mig heldur smátt og smátt dottið í gamla farið.
Spurningin var samt miklu meira AF HVERJU ég hafði ekki gert eins og ég átti að gera.

Hluti ástæðunnar er líklegast sá að ég prófaði að borða smá brauð kannski og fleira í þeim dúr og þoldi það alveg til að byrja með og hélt því að það væri í lagi.
Innst inni vissi ég samt að þetta átti ég ekki að gera og því fannst mér aðal ástæðan hljóta að liggja annars staðar.

Þegar ég svo var á Fresh Food Festival fékk ég nýjan vinkil á málið. Einn daginn sat ég á fyrirlestri hjá Douglas Graham þar sem hann talaði um cravings, svona mjög sterka löngun í einhverja ákveðna gerð matar. Eitthvað sem allir fá en leysa á mismunandi hátt.
Algengast er að fá fólk fái löngun í saltan og feitan mat og verður þá oftar en ekki að fá sér til að seðja þörfina.
Einnig er algengt að fá löngun í brauð og kornmeti (sterkjuríkan mat) ýmis konar.

Þetta kannaðist ég mjög vel við og var því spenntur að heyra meira um málið.

Hann sagði að svona langanir væru eðlilegar en fólk gripi einfaldlega ekki í rétta matinn á slíkum stundum.
Saltlöngunina væri auðveldlega hægt að seðja með því að borða grænt grænmeti og sterkjuþörfina með því að borða ávexti.

Í framhaldi af því fór hann að tala um magn þess matar sem við borðum. Fólk sem borðar einungis hrátt grænmeti, ávexti og hnetur yrði að borða mun meira en það oft gerir sér grein fyrir. Flest erum við alinn upp við að stærsti hluti máltíðarinnar sé kjöt og korn af einhverju tagi en svo smá grænmeti til hliðar. Svo grípur fólk í einn og einn ávöxt milli mála.

Þessari hugsun þarf fólk að breyta sem ætlar sér að skipta um mataræði. Í stað þess að borða kannski eitt epli og nokkra melónubita í morgunmat þarf kannski að borða 3 epli og heila melónu.
Salat þarf kannski að vera heill salathaus, heil gúrka, 10 tómatar og þar fram eftir götunum.

Með þessu móti nærðu að uppfylla allar þær kröfur sem líkaminn gerir og slærð á allar skyndilanganir í saltan, feitan og sterkjuríkan mat.

Þessi breyting þarf samt að gerast hægt. Maður hoppar ekki beint úr því að borða 2 banana í morgunmat í það að borða 10, en smám saman ferðu að ráða við meira magn.

Ég hlakka því til að háma í mig risastór salöt og kúffulla ávaxtadiska í náinni framtíð.

Wednesday, August 8, 2012

Aftur á byrjunarreit

Það eru liðnir nokkrir mánuðir síðan ég skrifaði síðast og í millitíðinni hafa nokkrir hlutir gerst.
Hér kemur lýsing á þeirri atburðarrás sem hefur átt sér stað:

Eftir 3 vikur á healing diet (bananar, döðlur, grænmetisdjúsar og gufusoðnar sætar kartöflur og gulrætur) hóf ég að borða "venjulegan" mat aftur.
Eins og mælt var með í Self Healing Colitis and Crohn's átti það ekki að vera "bara eitthvað" heldur ákveðið mataræði sem samanstendur af ávöxtum og hráu grænmeti að stærstum hluta en auk þess hnetum og fræjum af og til.
Þetta er oft kallað 80/10/10 eftir frægri bók eftir Douglas Graham.

Með því að borða eftir þessum "reglum" áttu Crohn's og Colitis sjúklingar að tileinka sér nýjan lífsstíl sem tryggði þeim áframhaldandi bata og góða heilsu um ókomin ár. Í raun á með þessu mataræði að vera hægt að losna við sjúkdómana fyrir fullt og allt.

Þetta gerði ég hins vegar ekki (nema alveg í byrjun) og fór smátt og smátt að leyfa mér að borða of mikið af korni, unnum vörum, salti, steiktum og mikið elduðum mat, áfengi, sumum mjólkurvörum o.fl.

Í byrjun gekk þetta ágætlega þar sem ég var orðinn alveg einkennalaus eftir healing diet-inn og þoldi kerfið því meira álag (einnig var nokkuð stutt síðan ég fór í lyfjagjöf og áhrifa þess líklega enn gætt í líkamanum).
En svo fór ástandið að versna, löturhægt þó, og ég tók því ekki vel eftir því.
Ég kláraði skólann í vor og fór að vinna á stað þar sem ég vann langar vaktir undir miklu álagi og þar tók ástandið að versna enn frekar.
Ég hélt að þessu hlyti nú að linna fyrr en síðar og hugsaði mér að ferð mín á Fresh Food Festival myndi koma mér aftur á rétta sporið.

Þegar á hátíðina var komið var ég fullur vissu um að nú myndi allt lagast. En á síðasta degi hennar var ég enn jafn slæmur og þá fór að læðast að mér sá grunur að ég þyrfti að gera eitthvað enn drastískara í málinu.
Eftir að hafa hugsað málið vel og rætt við kærustuna mína komst ég að þeirri niðurstöðu um að hætta í vinnunni þegar heim kæmi og einbeita mér eingöngu að því að koma heilsunni í lag.
Ég sá þetta sem eina tímann sem ég hafði því svo byrja ég í nýju og krefjandi námi í haust sem fylgir óhjákvæmilegt stress og álag.

Þegar heim kom tókum við 7 daga djúsföstu og algjöra hvíld sem ég tel að hafi gert mér mjög gott.
Ég byrjaði svo aftur að borða fasta fæðu en fór of fljótt í hráa grænmetið og var strax byrjaður að leyfa mér að borða brauð, drekka smá áfengi, steiktan og mikið eldaðan mat og mjólkurvörur.

Núna í dag, 3 vikum seinna, er ég orðinn mjög slæmur aftur, niðurgangur og verkir og fleira í þeim dúr.

Ég sá svo tvö viðtöl á forsíðu þessarar heimasíðu http://therawfoodcure.com/ (Jacob og Sjef) þar sem tveir menn segja sína sögu hvernig þeir unnu bug á Crohn's með hjálp bókarinnar eftir David Klein og þeirri lífsstílsbreytingu sem fylgdi í kjölfarið.

Núna er ég aftur byrjaður að lesa bókina, er á fyrsta degi í healing diet og er staðráðinn í að halda ótrauður áfram í átt að betri heilsu!

IT'S ON!