Sunday, August 18, 2013

Djúshelgi

Hæ og hó

Núna á miðvikudaginn eru 6 vikur síðan ég for síðast í Remicade. Það er akkurat tímapunkturinn sem ég hef aftur farið að finna fyrir einkennum (niðurgangur, verkir, slappleiki).
Mér hefur hingað til liðið mjög vel og sýni þess engin merki að hlutirnir séu á leið niður á við.

Ég ákvað samt að fyrirbyggja hugsanlega versnun með því að taka djúsföstu í nokkra daga og leyfa þannig meltingarkerfinu að hvíla sig og vinna úr bólgum, ef þær eru eitthvað byrjaðar að myndast.

Ég og kærastan mín ákváðum því að skella okkur upp í bústað til að djúsa, lesa og hafa það kósý.

Eftir að hafa farið fyrst í Bónus komum við við hjá vini okkar og meistara miklum honum Jóni bónda. Hann er grænmetisbóndi á Mosskógum í Mosfellsdal. Hann ræktar HELLING af alls konar fáránlegu girnilegu grænmeti og notar aðeins hrossaskít sem áburð og spreyjar ekki neinu ógeði á matinn.
Hann ræktar semsagt lífrænt, þó að hann sé ekki með slíka vottun.
Það er ekkert smá skemmtilegt að líta við hjá honum, rölta um garðana og benda á það sem maður vill og láta skera það af fyrir sig beint ofan í poka. Ferskara gerist það ekki.



Svo troðfylltum við ísskápinn uppi í bústað af girnilegheitunum og gæddum okkur á yfir helgina. Epli, gulrætur, sellerí og engifer fóru í djúsvélina en græna grænmetið og afhýddar sítrónur/lime fóru í mixerinn og þaðan gegnum síupoka.





Mér líður frábærlega í maganum eftir þessa helgi og meltingin er eins og hún gæti best verið.

Arnar

Tuesday, July 23, 2013

Stóra planið

Hæhæ alle sammen!

Hér kemur planið sem ég lofaði ykkur um daginn:



Mynd 1:
Hér tel ég fram ástæður þess af hverju ég vil breyta um mataræði og lífsstíl.




Mynd 2:
Hér skrifa ég niður þau markmið sem ég hef. Fyrst þau sem ég hef milli hverrar lyfjagjafar, svo eitt ár fram í tímann og að lokum langtímamarkmið.




Mynd 3:
Hér legg ég fram tímaplanið sjálft. Fór síðast 10. júlí og svo líða 8 vikur þangað til næst. Svo lengi ég um 1 viku milli hverrar gjafar.




Mynd 4:
Hér kemur fram það sem ég ÆTLA að gera og það sem ég ætla EKKI að gera.




Mynd 5:
Þetta er svo mantra/affirmation/staðhæfing sem ég fer með, oft í röð, þegar ég vakna og áður en ég fer að sofa (og hvenær sem er þannig séð). Ímynda mér að þetta sé nú þegar orðið að veruleika og þá fer ég smám saman, meðvitað og ómeðvitað, að vinna að því að láta það gerast.




Saturday, August 11, 2012

Langanir og stórir skammtar

Eftir að ég fór aftur að verða slæmur í maganum fyrir nokkrum vikum síðan fór ég að pæla hvað hefði eiginlega gerst. Ég vissi það alveg þannig séð - ég hafði einfaldlega ekki borðað rétta matinn fyrir mig heldur smátt og smátt dottið í gamla farið.
Spurningin var samt miklu meira AF HVERJU ég hafði ekki gert eins og ég átti að gera.

Hluti ástæðunnar er líklegast sá að ég prófaði að borða smá brauð kannski og fleira í þeim dúr og þoldi það alveg til að byrja með og hélt því að það væri í lagi.
Innst inni vissi ég samt að þetta átti ég ekki að gera og því fannst mér aðal ástæðan hljóta að liggja annars staðar.

Þegar ég svo var á Fresh Food Festival fékk ég nýjan vinkil á málið. Einn daginn sat ég á fyrirlestri hjá Douglas Graham þar sem hann talaði um cravings, svona mjög sterka löngun í einhverja ákveðna gerð matar. Eitthvað sem allir fá en leysa á mismunandi hátt.
Algengast er að fá fólk fái löngun í saltan og feitan mat og verður þá oftar en ekki að fá sér til að seðja þörfina.
Einnig er algengt að fá löngun í brauð og kornmeti (sterkjuríkan mat) ýmis konar.

Þetta kannaðist ég mjög vel við og var því spenntur að heyra meira um málið.

Hann sagði að svona langanir væru eðlilegar en fólk gripi einfaldlega ekki í rétta matinn á slíkum stundum.
Saltlöngunina væri auðveldlega hægt að seðja með því að borða grænt grænmeti og sterkjuþörfina með því að borða ávexti.

Í framhaldi af því fór hann að tala um magn þess matar sem við borðum. Fólk sem borðar einungis hrátt grænmeti, ávexti og hnetur yrði að borða mun meira en það oft gerir sér grein fyrir. Flest erum við alinn upp við að stærsti hluti máltíðarinnar sé kjöt og korn af einhverju tagi en svo smá grænmeti til hliðar. Svo grípur fólk í einn og einn ávöxt milli mála.

Þessari hugsun þarf fólk að breyta sem ætlar sér að skipta um mataræði. Í stað þess að borða kannski eitt epli og nokkra melónubita í morgunmat þarf kannski að borða 3 epli og heila melónu.
Salat þarf kannski að vera heill salathaus, heil gúrka, 10 tómatar og þar fram eftir götunum.

Með þessu móti nærðu að uppfylla allar þær kröfur sem líkaminn gerir og slærð á allar skyndilanganir í saltan, feitan og sterkjuríkan mat.

Þessi breyting þarf samt að gerast hægt. Maður hoppar ekki beint úr því að borða 2 banana í morgunmat í það að borða 10, en smám saman ferðu að ráða við meira magn.

Ég hlakka því til að háma í mig risastór salöt og kúffulla ávaxtadiska í náinni framtíð.