Sunday, January 29, 2012

Breyttar aðstæður

Núna eru liðnir 4 dagar síðan ég hóf vegan hráfæðis prógrammið og mér líður bara mjög vel satt best að segja, a.m.k. í maganum (þá á ég samt við ristilinn).
Hins vegar hef ég átt í smá erfiðleikum að laga mig að þessum breyttu matarvenjum.

Fyrir ykkur sem vitið ekki hvað það þýðir að vera vegan hráfæðisæta þá er það í fyrsta lagi að borða engar dýraafurðir (allt kjöt, fisk, egg, mjólkurvörur og svo er hunang á gráu svæði) og í öðru lagi að ekkert af því sem maður borðar má vera eldað. Ástæður þess eru margar og mun ég tala um þær að einhverju leyti í komandi bloggum.

Að borða á þennan hátt er frekar erfitt, allavega svona í byrjun, og sérstaklega í því samfélagi sem við búum í þar sem nánast allur matur er annaðhvort eldaður, með einhvers konar dýraraafurðum, eða þá bæði.
Ég skil það samt mjög vel að hlutirnir séu svona. Þar spila inn í hefðir, matarúrval á landinu og einnig áróður ýmissa fyrirtækja og stofnana um það hvað fólk ætti og ætti ekki að leggja sér til munns.

Það er því mælt með að fólk færi sig hægt og hægt yfir í slíkt mataræði. Ég gerði það svoleiðis, hætti t.d. að borða kjöt í sumar og byrjaði að drekka græna smoothie-a. Svo fór ég smátt og smátt að minnka mikið steiktan mat, fisk og egg þar til um áramótin að ég hætti alveg í fiskinum. Samtímis hafði ég aukið grænmeti og ávexti í mataræðinu til muna (borðaði MJÖG lítið af ávöxtum áður, held ég sé ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi innbyrt jafnmarga ávexti fyrstu 2 vikurnar eftir að ég byrjaði að drekka smoothie-a í sumar og allt það ár til samans).
Þannig náði ég að laga mig að breyttum aðstæðum í stað þess að snúa öll við einn daginn og fá andlegt og líkamlegt sjokk.

En ég get alveg fullyrt að hætta að borða eldaðan mat er MUN erfiðara en að hætta í kjötinu og fiskinum. Auk þess er ekki mælt með því að ég borði neitt kornmeti heldur og það útilokar ýmis girnileg hrákex og kökur sem venjulegar hráfæðisætur borða.
Annars tekur líka smá tíma að venjast því að borða svona mikið af grænmeti og ávöxtum. Áður fékk maður sér kannski 1 banana og svo 2 brauðsneiðar með einhverju áleggi. Núna þarf ég í staðinn kannski að borða 3 banana til að verða jafn saddur.

En ekki nóg með breytingarnar á fæðutegundum heldur þarf líka að huga að því hverju má blanda saman því það getur skipt gríðarlega miklu máli um hvort matur meltist vel eða ekki. En það ætla ég að tala um næst.

Ég hef ekki farið í Remicade núna í 103 daga. Venjulega hef ég farið á 56 daga fresti en það eru margir sem fara oftar því það dregur oft fljótt úr virkni lyfsins.
Mér var tilkynnt á sínum tíma að ég þyrfti mjög líklega að vera á Remicade eða sambærilegum lyfjum það sem eftir væri ævinnar, þar sem Crohn's sé ólæknandi sjúkdómur. Við skulum sjá til með það.

No comments:

Post a Comment